Hvað eru kýrnar gamlar?
22.01.2015
Af og til koma upp vangaveltur um hversu gamlar kýrnar verði hér á landi. Í tilefni af slíkum vangaveltum voru könnuð gögn úr skýrsluhaldi nautgriparæktarinnar yfir allar kýr sem höfðu skráðan burð á árinu 2014. Samkvæmt þessum gögnum, sem lögð eru til grundvallar við útreikning á kynbótamati fyrir endingu, báru alls 25.239 kýr á nýliðnu ári. Elsta kýrin með skráðan burð á árinu 2014 var fædd árið 1996 og náði því 18 vetra aldri, sú kýr mun vera gengin fyrir ætternisstapann. Elsta kýrin með skráðan burð á árinu 2014 sem enn er lifandi, er fædd í maí 1998 og er því á sautjánda vetri. Nánar má sjá aldursdreifingu kúnna sem báru á liðnu ári á myndinni hér að neðan. Eins og sjá má er helftin af kúnum tveggja til sex vetra gamlar. Þess ber að geta þegar tölurnar eru skoðaðar, að einhver hluti af kúnum sem eru í framleiðslu báru ekki á liðnu ári (báru síðla árs 2013 og bera aftur snemma á þessu ári) og lítill hluti af kúnum nær að bera tvisvar innan ársins, janúar-febrúar og síðan aftur í nóvember-desember./BHB
![]() |
Fjöldinn er á lóðrétta ásnum og fæðingarárið á lárétta ásnum |