Beint í efni

Hvað er um að vera á áburðarmarkaði?

28.01.2008

Eins og fram hefur komið eru engar auglýsingar frá áburðarsölum í Bændablaðinu sem út kemur á morgun. Boðað hafði verið opinberlega í síðustu viku að verðlistar yrðu gefnir út í næsta blaði, en þær boðanir síðan afturkallaðar undir lok vikunnar.  Þá má sjá fréttir á heimasíðum áburðarsala sem gefa til kynna að verðhækkanir á áburði mælist jafnvel í þriggja stafa prósentutölu. Það er ekki alveg í samræmi við upplýsingar sem m.a. BÍ hafa aflað frá Danmörku og Noregi, þar sem hækkanir á undanförnu ári hafa verið á bilinu 2-33%.

Nú er janúar senn á enda og því styttist mjög sá tími sem er til reiðu í þessum efnum. Þeir bændur sem t.a.m. hyggja á kornrækt í vor þurfa margir hverjir að vera búnir að fá áburðinn eftir ca. tvo og hálfan mánuð, ef vorið verður skikkanlegt og hægt að sá snemma. Það er því ljóst að ef ekki fer að rofa til á þessum markaði mjög fljótlega, þá þurfa bændur að huga að öðrum leiðum en áður við að útvega sér áburð fyrir komandi vor.