Beint í efni

Húsvist kúnna hefur áhrif á frjósemina

13.02.2016

Líkurnar á að kýrin haldi við fyrstu sæðingu eru töluvert lægri sé kýrin í lausagöngufjósi sem er vel sett af kúm, séu steinbitar á gólfi eða sé fjósið hannað þannig að í því séu „botnlangar“. Þetta kemur m.a. fram í niðurstöðum norsks verkefnis sem greint var frá í tímaritinu Journal of Dairy Science í desember sl. Nálgun verkefnisins er einkar áhugaverð en með því voru tengd saman frjósemisgögn úr skýrsluhaldinu og margskonar upplýsingar um fjósin sjálf.

 

Alls byggja niðurstöðurnar á sæðingum í kjölfar 38 þúsund burða svo gagnasafnið er all stórt. Eins og hér að framan greinir og kemur etv. nokkuð á óvart var að kýr sem voru á steinbitum (rimlum) festu síður fang en kýr t.d. í fjósum með föstu gólfi. Þá kemur einnig fram að á þeim búum þar sem bitarnir voru gúmmíklæddir eða þar sem fast gólf var klædd með gúmmíi þá voru líkurnar meiri á því að festa fang fyrr en ella.

 

Sé horft til þess hve ásetið fjósið er og áhrif þess á frjósemi kom í ljós að ef það var minna pláss en 8,8 fermetrar á hverja kú, þ.e. hér eru taldir saman bæði gangar og legusvæði, þá hafði það neikvæð áhrif á frjósemina og voru þessi áhrif útskýrð með því að kýrnar eigi einfaldlega erfiðara með að sýna sitt rétta atferli séu þrengsl í fjósinu. Rétt er að benda á að rannsóknin tók til norskra kúa sem, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá kynbótafyrirtækinu Geno, eru þetta á bilinu 550-600 kíló fullvaxnar og taka því heldur meira pláss en íslenskar frænkur þeirra/SS.