Beint í efni

Hundarnir greina beiðsli hjá kúm

10.05.2013

Kúabændur eru alltaf leitandi að nýjum og áhugaverðum tæknilausnum til þess að létta sér starfið. Ætli nokkrum hafi þó dottið í hug að nota hund til þess að greina beiðsli hjá kúm? Sænskum hundaþjálfara hefur tekist að þjálfa hunda sem þefa einfaldlega uppi kýr sem á að sæða! Að sögn hundaþjálfarans Kim Salomonsson reynast hundar sérlega vel í þessu og eru mun ódýrari starfskraftar en fólk.

 

Að sögn Kim eru hundarnir eru fljótir að læra að þekkja beiðsli hjá kúm en hefðbundið beiðsli tekur um 13 klukkustundir. Eftir stöðu innan beiðslisins er lyktin sem kýrnar gefa frá sér mismunandi og eru hundarnir þjálfaðir í því að þekkja þá lykt sem leiðir til hámarks líkinda á frjóvgun við sæðingu.

 

Hugmyndina að þessari aðferð á hún Carola Fischer-Tenhagen sem er dýralæknir við háskólann í Berlín en auk þess að hafa prófað aðferðina í Svíþjóð stendur nú einnig til að setja upp tilraun í Finnlandi.

 

Hægt er að kynna sér nánar hundaskólann hennar Kim á heimasíðu fyrirtækis hennar: www.nordiskahund.se /SS.