Beint í efni

Hugmyndir að nýjum heildarsamtökum í landbúnaði

22.02.2023

Eftir þingsetningu Búgreinaþings í morgun voru hugmyndir kynntar um ný heildarsamtök í landbúnaði sem yrðu byggð sameiginlega á Bændasamtökum Íslands (BÍ) og Samtökum fyrirtækja í landbúnaði (SAFL).

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi alþingismaður og landbúnaðarráðherra, fór þá yfir niðurstöður vinnu þeirra Sigurgeirs Þorgeirssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra BÍ og ráðuneytisstjóra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, um möguleg ný landbúnaðarsamtök sem yrðu byggð á fyrirmynd dönsku heildarsamtakanna Landbrug & fødevarer frá árunum 2009–2022. Þá voru dönsku samtökin sett saman af tveimur stoðum; bændahlið og fyrirtækjahlið.

Í máli Steingríms kom fram að aðdraganda vinnunnar að þessum hugmyndum megi rekja til ályktana á undanförnum þremur Búnaðarþingum. Samtök fyrirtækja í landbúnaði hafi verið stofnuð snemma árs 2022 og í kjölfarið sótt um sjálfstæða aðild að Samtökum atvinnulífsins. Samtöl hafi síðan hafist milli BÍ og SAFL með milligöngu þeirra Steingríms og Sigurgeirs.

Steingrímur sagði að um síðustu áramót hafi tveggja stoða kerfi dönsku samtakanna verið afnumið og algjör samruni hafi orðið þarna á milli. Samtökin séu öflug í almannatengslum og kynningarmálum, gagnvart almenningi, fjölmiðlum, stjórnvöldum og atvinnulífi.

Fulltrúar frá BÍ og SAFL fóru kynnisferð til Danmerkur í nóvember og sagði Steingrímur að þar hafi komið fram að mikil áhersla sé lögð á að danskur landbúnaður komi fram sem samstillt heild.  Ekki sé gert lítið úr þeirri vinnu sem sé framundan við að stilla saman strengi, en þeir Steingrímur og Sigurgeir telja að það verði auðveldara þegar menn eru orðnir vanir hugsuninni um að allir séu saman í liði.

Markmið þessara breytinga er að nýta samanlagðan styrk bænda og fyrirtækja í þágu heildarhagsmuna landbúnaðarins.

Tillaga um ný heildarsamtök í landbúnaði verður lögð fyrir Búnaðarþing 2023 sem haldið verður í mars.

/Frétt af bbl.is