Beint í efni

Hringskyrfi á kúabúi í Eyjafirði

14.09.2007

„Smitsjúkdómur, svokallaður hringskyrfi, hefur greinst í nautgrip frá bæ í Eyjafirði. Sjúkdómurinn getur borist í menn en er ekki talinn bráðsmitandi. Bærinn sem sjúkdómurinn er rakinn til hefur verið einangraður og bændur í Eyjafirði hvattir til að takmarka ferðir á milli fjósa. Líklegt er talið að fljótlega verið hægt að ráða bót á vandanum. Sjúkdómsins varð fyrst vart fyrir nokkrum vikum í einum nautgrip við slátrun frá bænum Hofi í Arnarneshreppi við Eyjafjörð. Sýni voru rannsökuð að Keldum og hjá danskri tilraunastöð og í síðustu viku var staðfest að um hringskyrfi er að ræða. Hringskyrfi er húðsjúkdómur (sveppasýking) sem getur borist í menn en telst ekki hættulegur.

  Sjúkdómsins hefur ekki orðið vart hér á landi um áratuga skeið, en hringskyrfi er landlægur í nágrannalöndunum. Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir, segir að hér sé um einangrað tilfelli að ræða sem líklega verði hægt að komast fyrir fljótlega. Allur flutningur dýra til og frá Hofi var bannaður strax og sjúkdómsins varð vart og aðgangur þangað takmarkaður. Ólafur tekur skýrt fram að þetta tilfelli hafi ekkert með aðbúnað á Hofi að gera, þar sé vel rekið bú og almennt heilbrigði dýra á bænum sé mjög gott“. 

 

Ástæða er til að taka fram að engin hætta er á að sjúkdómurinn berist í menn með afurðum, kjöti eða mjólk.

 

Af www.ruv.is