Beint í efni

Hringlaga fjós

16.02.2016

Nýverið var tekið nýtt fjós í notkun í Danmörku sem er nú ekki í frásögur færandi ef ekki væri um hringlaga tjaldfjós að ræða! Fjós þetta (sjá mynd) stendur við bæinn Glejbjerg rétt austan við Esbjerg en fjósið er sk. einingafjós og framleitt í Englandi af fyrirtækinu Roundhouse Building Solution. Fjósið sjálft er 30 metrar að þvermáli og er ummál þess 95 metrar. Heildargrunnflöturinn er 720 fermetrar og er fjósinu skipt upp í 86 fermetra stíur.

 

Þessi byggingamáti hefur vakið athygli í Danmörku enda virðist um afar ódýrt fjós að ræða en í þessu fjósi, sem er í eigu bóndans Rasmus Lauridsen frá kúabúinu Toftegaard, verða eingöngu  hafðar geldkýr. Rasmus þessi hefur upplýst að hvert pláss fyrir kúna kostaði 130-150 þúsund íslenskar krónur í þessu fjósi svo ef það stenst er vissulega um einstaklega ódýrt fjós að ræða. Þá tók einungis tvo og hálfan dag að reisa fjósið sjálft en Rasmus hafði áður gert gólf fjóssins tilbúið.

 

Ef þú hefur áhuga á að kynna þér þessa fjósgerð nánar þá er fyrirtækið Roundhouse Building Solution með heimasíðuna www.roundhouseltd.co.uk þar sem þú getur séð ýmsar áhugaverðar upplýsingar um hringlaga fjós. Rétt er að geta þess að alls óvíst er hvort svona fjósgerð gæti gengið hér á landi vegna veðurfarsaðstæðna, en hugmyndin er nú áhugaverð fyrir því/SS.