Beint í efni

Hreinræktaðir Aberdeen Angus gripir til sölu!

22.06.2023

Alls verða 11 Angus gripir til sölu í júní 2023 hjá NautÍs. Um er að ræða 4 naut sem eru að verða 14 mánaða auk 7 kvígna, en tvær þeirra eru tilkomnar með fósturvísaflutningum. Elsta kvígan er fædd í marsbyrjun 2022 en þær yngstu í lok júlí 2022. Gripirnir verða afhentir að loknu útboði, nema nautin sem eru í sæðistöku - þau verða afhent þegar nægjanlegt magn af sæði hefur náðst úr þeim. Tilboðin í gripina þurfa að berast á þar til gerðu eyðublaði sem sent er í ábyrgðarpósti, eigi síðar en miðvikudaginn 28. júní 2023. Tilboðin verða síðan opnuð 4. júlí nk.


Söluferli gripanna

Ákveðið var að styðjast við sömu útboðsreglur og í fyrra en nú eru kvígur líka til sölu. Óskað er eftir skriflegum tilboðum í hvern grip á þar til gerðu eyðublaði. Eyðublaðið má finna hér.


Hverjir mega bjóða í gripina?

Rekstraraðilar í nautgriparækt - bæði einstaklingar og lögaðilar - geta sent inn tilboð uppfylli þeir eftirfarandi skilyrði:

1. Séu skráðir eigendur eða leigjendur lögbýlis og með lögheimili á Íslandi.

2. Stundi nautgriparækt og reki nautgripabú á lögbýlinu með virkt virðisaukaskattsnúmer og starfsemi þeirra falli undir atvinnugreinanúmer 01 og 02 í atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands, sbr. ÍSAT2008, þó ekki starfsemi í undirflokkum 01.61, 01.62, 01.63, 01.64, 01.70 og 02.40.

3. Séu þátttakendur í afurðaskýrsluhaldi Bændasamtaka Íslands og hafi sinnt fullnægjandi skilum á skýrslum fyrir framleiðsluárið 2022, sbr. 4 gr. reglugerðar nr. 348/2022.


Tilboðsferli

Tilboð verða að berast á þar til gerðu eyðublaði sem aðgengilegt verður á heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands (bssl.is) en þeir sem ekki geta nálgast eyðublaðið á þann hátt geta haft samband við Svein í síma 894-7146 og fengið blaðið sent til sín. Eyðublaðið má jafnframt finna hér.

Á eyðublaðinu er tilgreint í hvaða grip eða gripi er verið að gera tilboð en bjóða má í eins marga gripi og hver vill, en tilgreina skal hversu hátt er boðið í hvern þeirra. Ef sami aðili sendir inn fleiri en eitt tilboð gildir nýjasta tilboðið, en hver tilboðsgjafi getur bara haft eitt gilt tilboð í hvert naut og sömuleiðis eitt gilt tilboð í hverja kvígu en sami aðili má kaupa eitt naut og eina kvígu. Lágmarksboð í nautin er 800.000 kr – áttahundruð þúsund kr - án vsk. Lágmarksboð í kvígurnar er 500.000 kr – án vsk og verða lægri tilboð ekki tekin gild.

Tilboðið á þar til gerðu eyðublaði þarf að senda í ábyrgðarpósti merkt:

Tilboð í nautgripi
Nautgriparæktarmiðstöð Íslands
Austurvegi 1
800 Selfoss

Tilboðið þarf að vera póstlagt í síðasta lagi miðvikudaginn 28. júní 2023 en tilboðin verða síðan opnuð og unnið úr þeim þriðjudaginn 4. júlí 2023 og hefst kl. 10:00. Þeim sem gera tilboð er frjálst að vera við þegar tilboðin eru opnuð og eða fylgjast með á teams fundi og fá sendan hlekk á fundinn til sín.


Ráðstöfun gripanna eftir opnun tilboða

1. Fyrst skal ganga úr skugga um að tilboð sem borist hafa séu gild þ.e. þau uppfylli öll þau skilyrði sem sett hafa verið.

2. Komi jöfn hæstu tilboð í einhvern grip frá tveimur eða fleiri aðilum skal hlutkesti ráða í hvaða röð tilboðin raðast.

3. Gengið skal frá sölunni á þann hátt að fyrst er tekin fyrir sá gripur sem hæst er boðið í, þá sá sem næst hæst er boðið í og svo koll af kolli. Komi jafn hátt boð í tvo eða fleiri gripi skal hlutkesti ráða um röð þeirra nauta við sölu.

4. Hver tilboðsgjafi getur einungis fengið keypt eitt naut og eina kvígu. Ef sami aðili á hæsta boð í fleiri en einn grip af hvoru kyni skal hann velja hvaða tilboði hann vill halda og dettur hann þá út sem tilboðsgjafi í aðra gripi.

5. Kaupandi skal ganga frá greiðslu fyrir gripina inn á bankareikning Nautís í síðasta lagi 7. júlí. Litið er á greiðslu á þessum tímapunkti sem fyrirframgreiðslu en nautin verða áfram í eigu og á ábyrgð Nautís fram að afhendingardegi.

6. Sé ekki greitt inn á banka á réttum tíma fellur tilboðið úr gildi og sá sem átti næst hæsta boð í viðkomandi grip fær kaupréttinn. Hafi sá aðili þegar fengið keyptan annan grip getur hann valið hvorn gripinn hann vill taka. Við svona breytingar á einum grip getur því kaupréttur breyst á fleiri gripum.

7. Ef gripur stenst ekki dýralæknisskoðun varðandi almennt heilsufar eða sæðisgæði að lokinni sæðistöku fellur sá gripur út úr sölumeðferð og fær kaupandi þá endurgreitt kaupverð. Þetta hefur þó ekki áhrif á röð tilboða eða kauprétt á öðrum nautum.

8. Berist ekki gilt tilboð í einn eða fleiri af gripunum mun stjórn Nautís ehf ákveða hvernig með þá gripi verður farið í framhaldinu.