Hrein gólf = færri júgurbólgutilfelli
01.06.2016
Ný hollensk rannsókn, sem grein var frá í tímaritinu Journal of Dairy Science í apríl, gekk út á að skoða áhrif þess að halda rimlum hjá mjólkurkúm hreinum og bera niðurstöðurnar saman við tíðni á júgurbólgu. Alls voru skoðuð 224 fjós í rannsókninni og kom í ljós að þar sem rimlunum er haldið oftar hreinum er tíðni júgurbólgunnar lægri.
Lægst reyndist tíðni júgurbólgu í fjósum þar sem rimlarnir voru skafnir sjálfvirkt fjórum sinnum á dag eða oftar en í þessum fjósum var tíðni skráðra júgurbólgutilfella 26. Í fjósum þar sem gólfin voru hreinsuð 1-4 sinnum á dag var tíðnin 29 en þar sem rimlagólfin voru hreinsuð sjaldnar reyndist tíðnin 35. Skýringin á þessum mun er augljós en þar sem rimlar eru oft skafnir eru kýrnar að jafnaði hreinni, sérstaklega klaufirnar. Fyrir vikið berst minna af mykju upp í básana og skilar það sér áfram í minna smitálagi/SS.