Beint í efni

Hraungos á Fimmvörðuhálsi – leiðbeiningar vegna dýra

21.03.2010

Hraungos er hafið á Fimmvörðuhálsi og 0,7-1 km sprunga myndast frá suðvestri til norðausturs. Hraun rennur frá henni stutta leið til austurs en meginhraunstraumurinn rennur til vesturs. Lítilsháttar gosmökkur er frá gosinu en hann nær um 1 km í loft upp og leggur beint til vesturs. Áhrif eru mjög staðbundin enn sem komið er og ekki flóðahætta fyrir hendi. Samkvæmt fréttum Rúv hefur rýming heimila gengið vel fyrir sig en vegir eru ennþá lokaðir við Vík, Fljótshlíð og Hvolsvöll. Ekki hafa heyrst fréttir af gjóskufalli eða eiturgufum í tengslum við gosið. Mjög hvasst er á svæðinu.

Ef að gosið dregst á langinn og hraunrennsli eykst telja jarðfræðingar að það myndi renna niður Hvannagil og jafnvel niður í Þórsmörk.

Í birtingu var bændum hleypt inn á lokuð svæði til að sinna búpeningi. Skráningarstöðvar vegna umferðar inn á lokuð svæði eru á Fljótshlíðarvegi og á þjóðvegi 1 austan við Hvolsvöll og Skóga.

Þegar aukinna jarðhræringa varð vart fyrir nokkrum vikum í nágrenni Eyjafjallajökuls voru allir þeir sem hafa með búfjárhald að gera í nágrenni jökulsins hvattir til að fylgjast vel með fréttum útvarpsstöðva. Athygli er vakin á því að á heimasíðu Almannavarna, www.almannavarnir.is er að finna upplýsingar um viðbúnað og viðbrögð. Þar er hægt að skrá sig í áskrift að tilkynningum og fréttum á vef almannavarna og fá þannig nýjustu meldingar í tölvupósti.

Upplýsingar um áhrif eldgosa á dýr má nálgast í eftirfarandi greinum:

Grein um áhrif eldgosa á dýr

Skýrsla um áhrif eldgosa á dýr

Vefur almannavarna