Hörfræ gott fyrir kýr – líklega!
09.02.2013
Kýr sem hafa fengið hörfræ, sem hluta af fóðrinu, framleiða mjólk sem inniheldur hærra hlutfall af ómega 3 fitusýrum og minna af mettaðri fitu samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn. Rannsóknin var unnin við háskólann í Oregonfylki en samanburðurinn var gerður á 10 fengnum kúm í hverjum fóðurflokki. Viðmiðunarhópurinn fékk hefðbundið fóður sem kýr fá alla jafnan í Bandaríkjunum, þ.e. maís, korn og vothey en aðrir hópar fengu mismikið af hörfræi í fóðurblöndu sína og allt upp í 7%.
Vísindamennirnir fundu út að kýrnar sem fengu mest magn af hörfræi framleiddu mjólk sem innihélt eins og áður segir hærra hlutfall af ómega 3 fitusýrum. Þó hafa ekki enn verið gefnar út fóðurleiðbeiningar þar sem óvíst er um önnur áhrif. Áfram verður unnið að þessu áhugaverða verkefni en tilgangurinn er eðlilega að geta fundið kórrétt hlutfall af fræinu, sem eykur hlutfall jákvæðra fitusýra, án þess að hafa önnur og hugsanlega verri áhrif á efnainnihald mjólkurinnar/SS.