Hollensk afurðastöð „mjólkuð“ af Grikkja
30.06.2011
Hollenskir kúabændur, sem höfðu lagt inn mjólk hjá afurðastöðinni Lyempf, hafa nú þurft að sjá á eftir um 2 milljörðum íslenskra króna í töpuðum kröfum eftir að rekstur Lyempf stöðvaðist. Lyempf er 99 ára gamalt afurðafélag sem var í „eigu“ grísks auðkýfings sem tók það yfir í febrúar árið 2010. Rekstrarvandi þess hófst þó árið 2004 þegar afurðastöðin var tekin yfir af nýjum eigendum sem fóru að lokka til sín innleggjendur með gulli og grænum skógum. Náðu þeir að plata til sín kúabændur frá öðrum afurðafélögum á þeim forsendum að bændurnir gætu fengið hærra verð fyrir mjólk sína en hjá stóru afurðafélögunum Friesland Foods og Lerdammer.
Árið 2009 varð félagið hinsvegar að fara út á hinn óörugga uppboðsmarkað með duft sitt þar sem félagið gat ekki lengur staðið þétt við gæðaframleiðslu þess og það kostaði hrun í tekjugrunni Lyempf. Þá kemur til sögunnar John nokkur Karageorgis, grískur „auðkýfingur“ sem skráður er eigandi Gramer Shipping. Í gegnum stöndugt fyrirtæki hans í Líberíu stóð til að kúabændurnir í norðurhluta Hollands myndu fá greitt fyrir mjólk sína og treystu þeir blindandi á þennan mikla fjármálamann. Kúabændurnir urðu þó að taka á vanda afurðastöðvarinnar með Grikkjanum og því fengu þeir ekkert greitt fyrir innlegg sitt í fyrstu heldur áttu von á hærri greiðslum síðar.
Á meðan grunlausir kúabændurnir lögðu inn mjólk sína í Lyempf mjólkaði Grikkinn fyrirtækið og náði til sín öllu lausafésem unnt var, auk þess sem hann fjarlægði einnig öll bókhaldsgögn í leiðinni! Fyrirtækið hefur nú hætt starfsemi og þar sem engin bókhaldsgögn eru til, er ekki einusinni hægt að lýsa það gjaldþrota! Eigandi Lyempf, hið „stönduga“ Líberíska fyrirtæki er ekkert annað en skúffufyrirtæki sem á engar eignir en skuldirnar nema 2 milljörðum króna!
Það eru margir sem enn hafa trú á möguleikum Lyempf og hefur nú Hyproca, félag nokkurra hollenskra afurðastöðva, tekið yfir það sem unnt var að taka yfir í rekstri Lyempf/SS.