Beint í efni

Hollendingar í víking til Svíþjóðar

03.12.2015

Það hefur löngum verið vitað að hollenskir kúabændur búa við það að vera aðþrengdir, enda landið lítið og alltaf meiri og meiri þörf fyrir land vegna stækkunar borga og bæja. Þó svo að landið sé etv. ekki mikið sem hver kúabóndi á, þá er það aftur á móti afar verðmætt. Margir hollenskir kúabændur hafa notfært sér þessa sérstöðu og selt land sitt og svo keypt kúabú í öðrum löndum, oft miklu stærri og betri rekstrareiningar en þeir voru áður með. Þetta er t.d. reyndin í Danmörku en talið er að um 20-25% kúabúanna þar séu rekin af Hollendingum. Nú er svo komin röðin að Svíþjóð!

 

Við höfum oft greint frá því hér á naut.is að sænskir kúabændur hafa átt í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum og mörg bú farið í þrot. Nú virðist sem að mörg þessara búa endi hjá hollenskum kúabændum, sem koma með mikið eigið fé og geta því keypt búin nokkuð auðveldlega og jafnvel stækkað þau svo þau verði betur rekstrarhæf. Hvor þeim svo takist að reka þau með hagnaði mun tíminn leiða í ljós/SS.