Beint í efni

Höldum staðreyndum til haga

19.09.2014

Finni Árnasyni, forstjóra Haga, er umhugað um bættan hag íslenskra bænda. Þessi forstjóri einnar stærstu verslunarkeðju landsins ritaði langa grein í Morgunblaðið á dögunum þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að mánaðarlaun íslenska bóndans séu einungis 70 þúsund krónur. Telur hann að hag bænda sé best borgið með því að „auka verslunarfrelsi“ á Íslandi sem þýðir með öðrum orðum að fella niður tolla á erlendum matvörum. Við bændur höfum ýmislegt við þessi orð að athuga.

Um verðmætasköpun í landbúnaði
Í skrifum forstjórans um lág laun í landbúnaði dregur hann ranga ályktun. Þó svo að landbúnaður sé ekki hálaunaatvinnugrein þá eru laun bænda ekki 70 þúsund krónur á mánuði að jafnaði. Birtar eru tvær töflur með greininni um rekstur og afkomu landbúnaðarins. Önnur inniheldur tölur sem teknar eru beint af vef Hagstofu Íslands og lýsa rekstri atvinnugreinarinnar. Sú síðari byggir hins vegar á útreikningum greinarhöfundarins sjálfs. Þar deilir hann launakostnaði á heildarfjölda starfandi í landbúnaði. Þar er um grundvallarmisskilning að ræða. Þau laun sem koma fram í töflunni eru aðeins vegna aðkeypts vinnuafls. Reiknuð laun allra eigenda búreksturs, sem reka sín bú á eigin kennitölu, er hluti af rekstrarafgangi, og raunar stærsti hluti hans, þar sem velflestir bændur viðhafa þetta rekstrarform. Nær lagi er að álykta að launagreiðslugeta sé þrisvar sinnum hærri tala en forstjórinn heldur fram. Framleiðsluvirði landbúnaðarins var 51,6 milljarðar árið 2013, rúmlega 140 milljónir á dag, samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands.

Er niðurfelling tolla leiðin að hamingjunni?
Í umræðu um niðurfellingu tolla er oft tekið dæmi af garðyrkjunni sem gekk í gegnum breytingar á sínu rekstrarumhverfi fyrir nokkrum árum. Þá var aflétt tollvernd á þremur vörutegundum. Til að bæta bændum það upp voru teknar upp beingreiðslur og þróunarstyrkir. Er það tillaga forstjóra Haga að fara sömu leið með aðrar búgreinar?

Á þeim tíma sem rekstrarumhverfi garðyrkjunnar var breytt urðu miklar tækniframfarir og framleiðniaukning, m.a. þegar aukin lýsing var tekin upp í gróðurhúsum. Neysluaukning samfara aukinni vitund um hollustu og gæði varð mikil. Kannanir Landlæknis á innlendu fæðuframboði staðfesta að grænmetismarkaðurinn hefur stækkað um 40% frá aldamótum þar sem neysla landsmanna hefur stóraukist. Erfitt er að segja hvað sé orsök og afleiðing í þessari þróun og ekki sjálfgefið að yfirfæra þessa reynslu á aðrar búgreinar þar sem markaðsstaðan er önnur.

Höfum í huga að flestar þjóðir sem við berum okkur saman við nota tollvernd til þess að hlutast til um sína matvælaframleiðslu. Þó svo að tollum yrði aflétt einhliða hér á landi er ekki sjálfsagt að Íslendingar fengju aðgang með sínar búvörur á erlenda markaði til að mæta sölusamdrætti á heimamarkaði. Ákvörðun um einhliða niðurfellingu tolla er líka ákvörðun um að skapa innlendum framleiðendum verri samkeppnisstöðu gagnvart erlendri framleiðslu, nema að þeim yrði bættur skaðinn.

Hagsmunagæsla bænda er ekki rekin fyrir opinbert fé
Finnur dregur fram rykfallna hörpu með ryðguðum strengjum þegar hann ræðir um fjármögnun Bændasamtaka Íslands. Það er rangt að hagsmunabarátta Bændasamtakanna sé rekin fyrir opinbert fé eins og forstjórinn staðhæfir. Í gildi er búnaðarlagasamningur milli ríkisvaldsins og bænda um stuðning við ráðgjafarþjónustu í landbúnaði, Framleiðnisjóð (sem er þróunar- og nýsköpunarsjóður landbúnaðarins), búfjárræktarstarf, jarðabótastyrki og fleira sem er óskylt rekstri hagsmunasamtaka bænda. Þessi verkefni eru lögbundin og eru reikningar sem þeim tengjast endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun ár hvert.
Bændasamtökin hafa oft gagnrýnt að í fjárlögum skuli þessi fjárlagaliður heita „Bændasamtök Íslands“ en ekki enn orðið ágengt í að breyta heitinu í t.d. „Búnaðarlagasamningur“. Það er orðinn árviss viðburður að ýmsir, sem rýna í fjárlögin, telja að þarna sé ríkissjóður að styrkja hagsmunagæslustarf Bændasamtakanna sem er fjarri lagi.

Hvað er búskapur?
Ein röksemd forsvarsmanna verslunarinnar fyrir auknum innflutningi á svína- og kjúklingakjöti er að framleiðslan eigi lítið skylt við landbúnað og sé í raun iðnaður. Það er ekki reyndin. Bændur í þessum greinum eru ekki síðri búmenn en aðrir starfsbræður þeirra hér á landi. Það krefst mikillar þekkingar að reka slík bú og það er vandi að ná árangri. Einn stærsti kornræktandi landsins er svínabóndi en hann hefur sett sér markmið um að auka hlut innlends fóðurs á sínu svínabúi. Fleiri svínabændur hafa sömu markmið í sínum rekstri. Sá árangur sem bændur hafa náð í kjúklinga- og svínarækt á Íslandi er góður. Lítið er um sjúkdóma og sýklalyfjanotkun er ein sú minnsta í Evrópu.

Verslun og landbúnaður
Það er rétt hjá Finni að fyrirtækið sem hann veitir forstöðu hefur unnið með bændum í áratugi. Fólk á landsbyggðinni nýtur þess líka að Bónus býður sama vöruverð um allt land sem er þakkarvert. Okkur sem störfum í landbúnaði er að sjálfsögðu umhugað að vinna með versluninni að framþróun og bættum hag. Hvorugur getur án hins verið. Við bændur tökum því fagnandi að hitta forsvarsmenn Haga yfir kaffibolla og lítum svo á að boð sem ekki hafi verið afþakkað standi enn. Þá getum við rætt umbúðalaust um framtíð íslensks landbúnaðar og verslunarinnar. Það er hins vegar ekki hægt að þegja þunnu hljóði þegar farið er með rangt mál í fjölmiðlum og nauðsynlegt að svara á sama vettvangi.

/Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands

Grein birt í Morgunblaðinu laugardaginn 20. september 2014.