Beint í efni

Holdanautabúskapur er starfsleyfisskyldur

25.02.2011

Á forsíðu Bændablaðsins, sem kom út í gær, er frétt um dýraverndarmál og starfsleyfisskyldu í landbúnaði. Í fréttinni segir m.a. „Búfjárhald sauðfjár, hrossa og holdanautgripa er ekki starfsleyfisskylt ólíkt mjólkurframleiðslu, kjúklinga-, svína- og minkarækt“. Þetta er rangt. Holdanautabúskapur er starfsleyfisskyldur. Í 13. gr. reglugerðar 438/2002 um aðbúnað nautgripa og eftirlits með framleiðslu mjólkur og annarra afurða þeirra, sem fjallar um leyfi til mjólkur- og kjötframleiðslu segir m.a. „Héraðsdýralæknar skulu, hver í sínu umdæmi, annast árlegt eftirlit með heilbrigði og hirðingu allra mjólkurkúa, kálfa og annarra nautgripa hjá mjólkur- og kjötframleiðendum samkvæmt reglugerð þessari. Úttektin skal a.m.k. ná til eftirfarandi þátta: húsakosts, gildandi úttekt mjólkureftirlitsmanns á mjaltakerfi og mjólkurhúsi, gæða vatns í mjólkurhúsi, mjaltaaðstöðu, hreinlætis, umgengni og öðru sem að framleiðslunni snýr. Telji héraðsdýralæknir að fullnægt sé þeim skilyrðum, sem sett eru í reglugerð þessari, gefur hann út framleiðsluleyfi fyrir viðkomandi framleiðanda sem veitir honum heimild til sölu nautgripaafurða. Úttekt héraðsdýralæknis skal send til viðkomandi framleiðanda ásamt framleiðsluleyfinu. Afrit af framleiðsluleyfi skulu varðveitt af héraðsdýralækni og viðkomandi afurðastöðvum. Framleiðsluleyfi skal skráð samkvæmt fyrirmælum yfirdýralæknis. Gildistími leyfisins er þar til næsta skoðun fer fram. Afurðastöðvum er óheimilt að taka við mjólk eða sláturgripum frá framleiðanda sem ekki hefur gilt framleiðsluleyfi. Árlega skulu héraðsdýralæknar semja yfirlitsskýrslu um fjósaskoðun og senda yfirdýralækni fyrir 1. júlí ár hvert“.

 

Matvælastofnun ber því að gefa út framleiðsluleyfi til holdanautabænda, uppfylli þeir skilyrði reglugerðarinnar. Búnaðarþing 2010 brýndi stofnunina til að koma útgáfu starfleyfa þessara í skikkanlegt horf. Æskilegt væri að Matvælastofnun sýndi ofangreindu ákvæði reglugerðarinnar sömu umhyggju og ýmsum öðrum ákvæðum, sem reglugerðin hefur að geyma.