Beint í efni

Hluti af dönsku kjarnfóðri stóðst ekki kröfur

16.04.2014

Í mars birti Þekkingarsetur landbúnaðarins (VFL) niðurstöður úttektar sinnar á gæðum alls selds kjarnfóðurs fyrir mjólkurkýr í Danmörku, en tekin voru sýni af 34 ólíkum tegundum kjarnfóðurs frá 11 framleiðendum. Farið var með kjarnfóðursýnin í fóðurefnagreiningu til þess að geta metið hvort sýnin myndu standast þá innihaldslýsingu sem fylgir hinu selda kjarnfóðri.

 

Í ljós kom að nærri fjórða hvert kjarnfóðursýni (8 af 34) stóðst ekki eigin væntingar til efnainnihalds og vék innihaldið í sumum tilvikum all verulega frá uppgefnu efnainnihaldi og í öllum tilvikum var um lægra efnainnihald að ræða en uppgefið var.

 

Í Danmörku er gefið að jafnaði um 1 tonn af kjarnfóðri á hverja árskú og miðað við meðal frávik efnainnihalds í þessum átta kjarnfóðurblöndum reiknuðu fóðurráðgjafarnir hjá VFL út að tap á hverja árskú nam 85-90 DKK eða um 1.870-1.980 ÍKR pr. árskú. Þetta kann að virka lág upphæð en þá er rétt að minna á að meðalfjöldi árskúa á kúabúum í Danmörku er um 160 kýr og nemur því upphæðin um 300.000 krónum á ári á hvert bú og munar um minna.

 

Vefurinn verður næst uppfærður laugardaginn 19. apríl þar sem framundan eru bæði Skírdagur og Föstudagurinn langi/SS.