Beint í efni

Hitaálag hjá kúnum? Síminn vaktar kýrnar!

08.08.2012

Breytingar á veðurfari hafa orðið til þess að ný og áður óþekkt vandamál geta komið upp á kúabúum hér á landi. Hitaálag hjá kúm er eitt þessara vandamála, en afurðatap vegna lofthita yfir 20°C getur verið á bilinu 10-20% eftir hámarksnyt kúa. Þó svo að þetta sé tiltölulega óþekkt vandamál hér á landi enn sem komið er, er gríðarleg reynsla og þekking til erlendis á þessum vanda. Nýjasta dæmið um hjálpartæki vegna hitaálags á kýr er smáforrit fyrir síma (oft kallað App) sem þróað hefur verið í Bandaríkjunum.
 
Forrit þetta var gert af vísindamönnum við Háskólann í Missouri og lætur þetta forrit kúabændur vita um hættur á hitaálagi á kýrnar áður en það verður! Forritið tvinnar saman upplýsingar um veðurfar og veðurspár auk framleiðsluupplýsinga viðkomandi bús og gripa og reiknar svo út hvort hætta sé á viðkomandi búi á hitaálagi á kýrnar. Þar sem það tekur allt að þrjá daga fyrir kýrnar að lenda í hitaálagi, vegna umhverfishita og hárra afurða, ætti í flestum tilfellum að vera mögulegt að koma í veg fyrir að kýr tapi afurðum vegna þessa svo fremi sem kúabændur bregðist við í tíma. Þess má geta að þetta smáforrit verður komið í sölu fyrir iPhone símana frá Apple nú í haust en notendur annarra snjallsíma verða víst að bíða um sinn/SS.