Beint í efni

Hið þýska DMK stefnir á útflutning

11.05.2012

Fyrir rétt rúmu ári varð til félagið DMK í Þýskalandi þegar þrjú samvinnufélög kúabænda voru sameinuð og úr varð stærsta afurðafélag Þýskalands. Nú er samruninn að mestu að baki og félagið farið að fikra sig inn á svipaða braut og önnur stór afurðafélög í Evrópu, þ.e. útflutning mjólkurafurða.

 

Líkt og margar aðrar afurðastöðvar stefnir DMK á útflutning til Mið-Austurlanda og Asíu en einnig Suður-Ameríku. Þá lítur Norður-Afríkumarkaðurinn út fyrir að vera áhugaverður fyrir félagið. Sú afurð sem DMK mun setja mestan kraft í útflutning á er mysupróteinduft, sem félagið framleiðir í samvinnu við Arla í afurðastöð DMK í Nordhackstedt í Schleswig-Holstein héraði í Norður-Þýskalandi.

 

DMK er stytting á nafninu Deutsches Milchkontor GmbH og vinnur það árlega úr um 6,7 milljörðum lítrum af mjólk í 23 afurðastöðvum. Gömlu samvinnufélögin eru enn til og eru kúabændurnir félagar í þeim. Þar er stærst félagið Nordmilch eG með u.þ.b. 7.000 kúabændur. Næst stærst er Humana Milchuninon eG með 5.300 kúabændur en minnst er félagið Bad Bibra eG með 100 kúabændur/SS.