Beint í efni

Heyþjófur tekinn!

26.03.2013

Við höfum vart undan að greina frá þjófnaði meðal sænskra bænda hér á naut.is en skemmst er að minnast bóndans sem kærði kúaþjófnað og var svo handtekinn sjálfur fyrir þjófnaðinn. Nú berast fregnir af umsvifamiklum heyþjófnaði frá Svíþjóð. Einn aðili er grunaður um að hafa stolið bæði heyi og hálmi fyrir um fimm milljónir íslenskra króna og hefur sá nú verið hnepptur í varðhald.

 

Kappi þessi hafði talið bændum trú um að hann væri starfsmaður stórs landbúnaðarfyrirtækis í Svíþjóð og auðtrúa bændurnir létu hann fá bæði hey og hálm á vörubíl sinn án efasemda. Þegar kom þó að því að rukka fyrirtækið, stóðu greiðslurnar eitthvað í forsvarsmönnum þess enda könnuðust þar á bæ engir við kaupin. Mannsins bíður nú fangelsisvist í boði hins opinbera, en bændurnir fá víst ekki bætt tap sitt þar sem ekki hefur tekist að finn peningana sem þýfið þó hefur að líkindum skapað/SS.