Beint í efni

Herkvaðning meðal norskra nautgripa!

24.05.2011

Konunglegi norski herinn hefur nú ákveðið að fá amk. 70 nautgripi í herinn á svæðinu við Åmot, um 200 km. norðan við Osló. Þessi óvenjulega norska herdeild mun þó gegna nokkuð hefðbundnu hlutverki nautgripa. Í auglýsingu hersins í blaðinu Østlendingen.no kemur fram að herinn sé nú að leita að nautgripahjörð með 70 gripum eða fleirum og þar stendur m.a. í fyrirsögn „Herinn leitar að viljugum kúm“ og áfram segir jafnframt svo frá væntanlegum starfsvettvangi við umhverfisstörf á útisvæðum hersins.

 

Þessi auglýsing hefur vakið athygli víða á Norðurlöndunum og töluvert verið í fréttum. Að sögn Åge Mohaugen, sem er ábyrgðarmaður eigna hjá hernum, er skýringin á þessu einföld en hann var í viðtali hjá nrk.no: „Þetta er einfaldlega besta aðferðin til þess að halda stórum útisvæðum niðri með umhverfisvænum hætti“. Ef ekki væru notaðir nautgripir þyrfti að nota vélar og tæki, sem bæði er dýrara að nota og ekki eins umhverfisvænt. Þetta er auk þess beggja hagur að sögn Åge, þar sem bóndinn fær þarna ókeypis beitiland þar sem ekki fara fram skotæfingar!

 

Þetta er víst í fjórða skiptið sem herinn ákveður að fara umhverfisvæna leið við hreinsun á útisvæðum og að sögn Åge hafa hinir hungruðu nýliðar ávallt staðið sig vel í þjónustu við konunginn/SS.