
Heltu sér yfir bandaríska landbúnaðarráðherrann
23.11.2017
Það varð heldur betur fjör á fundi kúabænda í Kalíforníu í Bandaríkjunum þegar landbúnaðarráðherra landsins lét sjá sig á fundi þar um daginn. Þar voru saman komnir 150 kúabændur sem voru uggandi yfir stöðu sinni en forseti landsins hefur hótað því að draga landið út úr hinu svokallaða NAFTA fríverslunarsambandi Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó. Donald Trump hefur haldið því fram að samningurinn sé afar slæmur fyrir Bandaríkin en fram kom á þessum fundi að afstaða kúabænda landsins er allt önnur. Þar kom m.a. fram að útflutningur landsins á mjólkurvörum hefði stóraukist í kjölfar samningsins en fyrir samþykkt hans nam útflutningur landsins á mjólkurvörum afar litlu en er nú um 15% framleiðslunnar og að Mexíkó er lang stærsti viðtakandi á mjólkurvörum frá Bandaríkjunum.
Sonny Perdue, ráðherra landbúnaðarmála, gerði sitt besta til að fullvissa fundarmenn um ágæti þess að draga landið úr NAFTA en eftir harðar umræður og vel valin orð kúabænda hefur verið haft eftir honum að landið þurfi líklega á einhverskonar hliðstæðum samningi að halda/SS