Beint í efni

Helstu atriði úr niðurstöðum búreikninga 2012

13.05.2014

Eins og skýrt var frá sl. föstudag eru komnar niðurstöður búreikninga fyrir árið 2012 og verður hér farið yfir þær helstu. Þær niðurstöður sem gefa einna gleggsta mynd af þróun afkomu kúabúanna, er samanburður sömu búa og skiluðu inn búreikningum fyrir árið 2011. Alls fylla 112 bú þann flokk að hafa skilað inn reikningum bæði árin. Að jafnaði voru þau með 43 kýr, sem er aukning um eina kú frá 2011. Innlögð mjólk var 217.727 lítrar, sem er aukning um 5.143 lítra frá árinu áður. Greiðslumark þessara búa dróst hins vegar saman um 0,3% frá árinu 2011 og var 197.401 ltr árið 2012. Þess ber að geta að greiðslumark ársins 2012 var 114,5 milljónir lítra, samanborið við 116 milljónir lítra árið 2011 (1,3% samdráttur); ekki er því óvarlegt að áætla að bændur í þessum hópi búa hafi bætt við sig sem nemur um 1% af greiðslumarki milli ára.

 

Tekjur af mjólkurkúm námu að jafnaði 28,9 milljónum króna, sem er aukning um 3,9% frá árinu á undan. Reiknað á innlagða lítra voru tekjur af mjólkurkúm 132,62 kr/ltr, á móti 130,72 kr/ltr árið 2011, sem er aukning um 1,5%.  Heildar búgreinatekjur þessara 112 búa voru að meðaltali 30,8 milljónir kr sem er aukning um 4,7%.

 

Breytilegur kostnaður var 60,93 kr/ltr árið 2012, sem er hækkun um 3,97 kr/ltr frá fyrra ári, eða 7%. Hækkun á fóðri nam 0,89 kr/ltr (4,7%), áburði og sáðvöru 1,10 kr/ltr (9,3%), rekstur búvéla hækkaði um 0,51 kr/ltr (5,4%), rekstrarvörur um 0,06 kr/ltr (1%) og mest munaði um 1,42 kr/ltr hækkun á þjónustu, sem er 12,9% hækkun frá fyrra ári.

 

Framlegð árið 2012 var 84,42 kr/ltr, sem er 0,4% lækkun frá árinu á undan. Hálffastur kostnaður var  hækkaði um 43,32 kr/ltr sem er hækkun um 3,63 kr/ltr frá árinu á undan. Munar þar mestu um hækkun á reiknuðum eigin launum sem hækkuðu um 2,98 kr/ltr eða 26%. Í því samhengi ber að geta að ríkisskattstjóri gerði miklar breytingar á reiknuðu endurgjaldi bænda um áramótin 2011/2012, þar sem endurgjaldið var hækkað umtalsvert. Af öðrum liðum hálffasta kostnaðarins stingur liðurinn rafmagn og hitaveita lang mest í augu, en hann hækkaði um 1 kr/ltr milli ára, eða 40%.

 

Afskriftir lækka um 20% milli ára, úr 20,89 í 16,74 kr/ltr. Munar þar lang mest um nærri helmings lækkun á niðurfærslu greiðslumarks, úr 6,04 kr/ltr í 3,21 kr/ltr. Sá liður hverfur með öllu úr bókhaldi kúabænda frá og með næsta ári, en heimild til niðurfærslunnar var felld út úr tekjuskattslögum á jólaföstu 2010. Afskriftir útihúsa og véla lækka einnig; útihús eru 2,95 kr/ltr og vélar 10,24 kr/ltr. Þetta kemur ágætlega við það mat LK að fjárfestingar kúabænda hafi náð lágmarki á þeim árum sem hér um ræðir.

 

Fjármagnsgjöld er sá liður búreikninganna sem tekur lang mestum breytingum á milli áranna 2011 og 2012. Hann fer úr því að vera

-24,75 kr/ltr árið 2011 (sem skýrist m.a. af leiðréttingum gengistryggðra lána), yfir í að vera gjöld upp á 15,37 kr/ltr.

 

Til að meta þróun á afkomu búanna er heppilegast að horfa á liðinn „Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og óreglulegar tekjur“, EBIDTA öðru nafni, en hann lækkaði um 9% milli áranna 2011 og 2012, úr 45,17 kr/ltr í 41,11 kr/ltr árið 2012. Afkomana var því nokkuð lakari árið 2012 en hún var árið 2011 samkvæmt þessum niðurstöðum. Auk þess sem að framan greinir um þróun á föstum og hálfföstum kostnaði, hefur samdráttur í greiðslumarki og lægra verð á umframmjólk á árinu 2012 í samanburði við 2011 sín áhrif á afkomuna.

 

Skuldir kúabúanna voru nær óbreyttar milli ára, 279 kr/ltr. Í því samhengi ber þó að geta að á þessum tíma voru ekki öll kurl komin til grafar varðandi leiðréttingu lána, og eru það raunar ekki enn þann dag í dag./BHB

 

Rekstrar- og efnahagsyfirlit kúabúa – samanburður sömu búa 2011 og 2012