Beint í efni

Helsinki, Pétursborg, Riga og Tallinn í einni ferð!

09.04.2011

Þessa dagana er verið að skipuleggja fjögurra landa ferð með áherslu á jarðrækt og nútíma búskaparhætti dagana 16.-26. ágúst nk. Ferðinni, sem Snorri Sigurðsson skipuleggur en Ferðaskrifstofa Guðmundar Jónassonar sér um, er heitið til Helsinki í Finnlandi þaðan sem ekið verður til hinnar geysilega sérstöku borgar St. Pétursborgar í Rússlandi, með viðkomu í Lappeenranta. Frá Pétursborg liggur leiðin til Tartu í Eistlandi, svo til Riga í Lettlandi og að lokum til hinnar þekktu Tallinn í Eistlandi. Að lokum er siglt með skemmtiferðaskipi frá Tallinn til Helsinki á ný og þar með er hringnum lokað.

 

Við skipulagningu þessarar ferðar er lögð sérstök áhersla á jarðrækt og jarðræktartækni auk þess sem farið verður í heimsóknir til bænda í þeim fjórum löndum sem verða heimsótt. Áhersla er lögð á stuttar aksturslengdir svo ferðin henti sem flestum en svo skemmtilega vill til að um 250 km eru á milli allra áfangastaða. Til viðbótar, sem er all sérstakt miðað við fyrri fagferðir sem Snorri hefur komið að skipulagningu á, verða fjórar skoðunarferðir með heimamönnum um borgirnar Helsinki, St. Pétursborg, Riga og Tallinn. Verið er að vinna í staðfestingum á heimsóknum til bænda, fyrirtækja og/eða stofnana í löndunum.

 

Allar nánari upplýsingar um þessa frábæru ferð, sem til stendur að fara í dagana 16. – 26. ágúst nk., er hægt að lesa um í meðfylgjandi ferðadrögum með því að smella hér. /BHB