Beint í efni

Helmingur mjólkurinnar seldur beint frá býli!

24.01.2013

1. janúar sl. voru liðin sex ár frá því að Búlgaría gerðist aðili að Evrópusambandinu og á fimm árum átti landið að aðlaga sig að hinum mikla frumskógi af lögum og reglum sem í ríkjasambandinu gilda. Landinu var svo veittur tveggja ára viðbótar aðlögunartími en sá frestur rennur út um næstu áramót. Nú hefur komið í ljós að um þriðjungur kúabúa landsins stenst ekki kröfurnar. Um er að ræða rúmlega 27 þúsund lítil kúabú sem hafa tíma til næstu áramóta að bæta úr en þessi bú standa á bak við um 34% af mjólkurframleiðslu landsins.

 

Skýringarnar á því afhverju búin standast ekki kröfurnar eru þær að mikil hefð er fyrir beinni sölu á mjólk í Búlgaríu og um 50% framleiddrar mjólkur er seld til afurðastöðva. Restin eða alls um 550 milljónir lítra mjólkur eru seldir beint frá býli! Margir af þeim bændum sem hafa selt mjólk við fjósdyrnar hafa til þessa ekki haft miklar áhyggjur af auðþrífanlegu mjólkurhúsgólfi eða öðru slíku sem gerðar eru kröfur um í dag svo dæmi sé tekið. Undan því verður þó ekki komist nú ætli bændurnir að halda í leyfin sín. Þess má geta að handmjaltir eru enn mjög útbreiddar í landinu/SS.