Heimsviðskipti með mjólkurafurðir aldrei meiri
03.05.2011
Viðskipti í heiminum með mjólkurafurðir eru afar mikil um þessar mundir og hafa þau aukist markvisst á undanförnum árum. Stærsta útflutningsland mjólkurafurða í heiminum, Nýja-Sjáland, setti nýtt met nýverið þegar útflutningurinn í mars nam 229 þúsund tonnum. Þetta gríðarlega mikla magn samsvarar 560 gámum (20 feta) á sólarhring og þýðir að á 2,6 mínútna fresti ná þessir andfætlingar okkar að fylla einn gám með mjólkurafurðum til útflutnings! Verðmæti útflutnings Ný-Sjálendinga í mars nam heilum 109 milljörðum íslenskra króna (1,2 milljarðar NZD) segir í tilkynningu frá Fonterra – afurðafélagi þarlendra kúabænda.
Upphaf framleiðslutímabilsins í Nýja-Sjálandi gaf í raun ekki ástæður til þess að ætla að framleiðslan í ár yrði mikil enda hafa bæði þurrkar, flóð og snjóstormar herjað á mjólkurframleiðsluhéruð! Undanfarið hefur þó verið hlýtt og rakt sem hefur gefið af sér mikinn grasvöxt með framangreindum árangri. Helstu skýringar á auknum vexti í útflutningi er þó sem fyrr að sækja í stöðugri eftirspurn eftir mjólkurvörum sem naut.is hefur ítrekað greint frá. Þar skiptir eftirspurnin frá Kína, Suð-Austur Asíu og Mið-Austurlöndum verulegu máli en mest neysluaukning er hjá sk. miðstéttarfólki sem hefur núorðið meira svigrúm en áður.
Fleiri stór afurðafélög eru á þessum heimsmarkaði með afurðir sínar og má þar nefna Arla, sem tekur á móti mjólk frá bændum í bæði Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi. Arla flutti út árið 2010 um 800 þúsund tonn af mjólkurafurðum /SS.