Beint í efni

Heimsókn á Freerslev Kotel

11.09.2013

Á dögunum var fulltrúum Landssambands kúabænda boðið að sitja fund Norrænu bændasamtakanna, Nordens Bondeorganisationers Centralråd, sem haldinn var í Danmörku. Bændasamtök Íslands eiga aðild að samtökunum. Í tengslum við fundinn var farið í heimsókn á kúabúið Freerslev Kotel á Norður-Sjálandi. Þar búa Erik og Inge Jensen, ásamt tveimur af fimm börnum þeirra, með 250 Jersey kýr í legubásafjósi frá árinu 2000, ásamt 230 kvígum í uppeldi. Á búinu eru þrír starfsmenn, auk þeirra hjóna. Mjólkað var í 2×12 DeLaval mjaltabás og eru ávallt tveir við mjaltir. Annan hvern dag eru þrír við fjósverkin, þegar undirburði er dreift í legubásana. Morgunmjaltir hófust kl. 4.30 og síðdegismjaltir kl. 15.00. Mjaltir á þessum kúafjölda taka tvær og hálfa klukkustund, eða um hundrað kýr á klukkutíma.   

Samkvæmt skýrsluhaldi var afurðastigið 6.808 kg mjólkur, með 6,03% fitu og 4,17% próteini, alls 694 kg verðefna. Það ígildir um 8.900 kg af orkuleiðréttri mjólk pr. árskú.

 

Það vakti athygli gesta hversu vel var búið að kálfum og ungviði, voru í einstaklingsstíum með hálmi fyrstu fjórar vikurnar, eftir það í hópstíum, fimm til sex saman. Mikil áhersla var lögð á að koma broddi í kálfana sem allra fyrst eftir burðinn, þeim voru gefnir þrír lítrar með sondu eins fljótt og við var komið.

 

Einnig var athyglsvert að heyra að bændur notuðu kyngreint sæði á bestu kýrnar og kvígurnar, til að tryggja að undan þeim kæmu kvígukálfar og til að auðvelda 1. kálfs kvígum burðinn. Svigrúmið sem þar myndaðist, var nýtt til að sæða lökustu mjólkurkýrnar með sæði úr Dansk blåkvæg holdanautum, nautkálfarnir sem út úr því komu voru seldir til kjötframleiðslu.

 

Þá tóku bændur þarna á móti miklum fjölda grunn- og leikskólanema, ásamt því að vera þátttakendur í verkefninu „Opinn landbúnaður“ sem er á vegum dönsku bændasamtakanna, hliðstætt við samskonar verkefni hér á landi. Bar umgengnin á búinu þess glöggt merki, allt í röð og reglu og snyrtlegt á að líta. Var heimsókn þessi afar ánægjuleg upplifun. Nánar má fræðast um Freerslev Kotel á heimasíðu býlisins, tengillinn er hér að neðan./BHB

 

www.freerslevkotel.dk

 

Erik og Inge fræða gesti sína um búskapinn
Mjaltir í fullum gangi, 24 kýr mjólkaðar í einu og tveir við mjaltir
Blendingsnautkálfur, Jersey og Dansk blåkvæg, fimm daga gamall