Beint í efni

Heimsmet í þreskingu á hveiti

24.11.2011

Það kann að hljóma hálf undarlega í íslensk eyru en nýverið samþykkti Heimsmetabók Guiness nýtt heimsmet í þreskingu á hveiti upp á 675,8 tonn á átta klukkustundum! Þetta er mesta þekkta magn sem ein þreskivél hefur uppskorið á einum vinnudegi en um var að ræða Claas Lexion 770 vél. Fyrra metið átti New Holland frá árinu 2008 upp á 551,8 tonn.

 

Metið var slegið á ökrum í Englandi og voru tveir sláttumenn á vélinni á vöktum. Þó svo að metið miðist við átta klukkustundir hættu þeir þó ekki þar og héldu áfram í 20 tíma og höfðu þá slegið 129 hektara og höfðu einungis stoppað í 100 mínútur til þess að sinna viðhaldi og smurningu. Samtals nam þá uppskeran 1.362 tonnum með 84,1% þurrefni sem gerir að jafnaði 71 tonn á klukkutímann. Þess má geta að Claas Lexion 770 skilar 586 hestaöflum við 1800 snúninga, er með 12 metra breitt skurðarborð og korntankurinn tekur 12.000 lítra/SS.