Beint í efni

Heimsmet í afurðamagni frá mjaltaþjóni

27.04.2013

Mjaltaþjónafyrirtækin um allan heim takast ekki bara á þegar horft er á verð mjaltaþjónanna heldur einnig á ýmsum öðrum sviðum. Eitt þessara sviða er afkastageta hvers mjaltaþjóns en nýverið var sett nýtt heimsmet í framleiðslu með DeLaval mjaltaþjóna vestur í Bandaríkjunum.

 

Met þetta var sett á kúabúinu JTP Farms í Wisconsin í Bandaríkjunum en þar hafa verið mjaltaþjónar frá því í janúar 2012. Alls mjólkuðu kýrnar að jafnaði 47 kg á dag í sjö daga, sem er eigin viðmið mjaltaþjónafyrirtækjanna þegar met sem þetta er skoðað.

 

Á búinu voru 247 mjólkandi kýr og fjórir mjaltaþjónar og því 62 kýr um hvern mjaltaþjón. Samtals runnu í gegnum hvern þeirra 2.933 kg mjólkur á dag sem uppreiknað svarar til meira en milljón kg á ári, sem er einmitt það markmið sem margir ráðunautar telja raunhæft að ná með góðri tækni og bústjórn.

 

Þess má geta að á Íslandi var einmitt afurðamesti mjaltaþjónninn á síðasta ári, þ.e. miðað við innvegið magn í afurðastöð, DeLaval en árið 2011 var hinsvegar Lely mjaltaþjónn með mestar afurðir hér á landi/SS.