Beint í efni

Heimsmarkaðurinn með nautakjöt að breytast

10.05.2011

Í ár er gert ráð fyrir að nokkuð miklar breytingar verði á heimsmarkaðinum með nautakjöt, m.a. vegna breytinga á veðurfari í heiminum. Flóð og þurrkar hafa haft margvísleg áhrif á framleiðsluaðstæður víða og við blasir nokkuð breytt mynd í nautgriparæktinni, rétt eins og í kornræktinni sem naut.is hefur áður greint frá. Þannig er ætlað að framleiðsla nautgripakjöts í Suður-Ameríku dragist verulega saman í ár en framleiðsla í Indlandi aukist að sama skapi.

 

Bandaríska landbúnaðarráðuneytið hefur nú birt spá um stöðuna á heimsmarkaði með nautakjöt árið 2011 (kjöt af buffalóum inni í öllum tölum), en slík spá er birt tvisvar á ári. Þrátt fyrir töluverðar breytingar á markaðinum er Brasilía enn á toppi listans yfir útflutningslönd en bilið yfir í Ástralíu er orðið stutt eða rétt um 250 þúsund tonn. Fjórum löndum er spáð því að flytja út meira en eina milljón tonna á þessu ári en það eru Brasilía, Ástralía, Indland (líklega mikið buffalóakjöt) og Bandaríkin. Þessi fjögur lönd eru með um 50% af heimsmarkaðinum í nautakjöti sem talinn er nema um 7.747 þús. tonnum (sjá töflu I hér fyrir neðan).

 

Í sömu spá bandaríska ráðuneytisins kemur fram áætlun um innflutning landa og þar vekur etv. mesta athygli spá þess eðlis að Bandaríkin verða nettó útflytjendur á nautakjöti í ár ef spá þessi gengur eftir og er það í fyrsta skipti í afar langan tíma sem slíkt gerist. Evrópusambandslöndin eru hinsvegar, sem fyrr, nettó innflytjendur á nautakjöti (sjá töflu II hér fyrir neðan)/SS.

 

Tafla I. Spá um útflutt nauta- og buffalóakjöt á heimsmarkaðinum árið 2011*

Þúsund tonn
Brasilía 1.600
Ástralía 1.350

Bandaríkin

1.123
Indland 1.000
Kanada 525
Nýja-Sjáland 478
Úrúgvæ 350
Paragvæ 310
Evrópusambandslöndin 295
Argentína 270
Mexíkó 120
Önnur lönd 326
Samtals 7.747

 

Tafla II. Spá um innflutt nauta- og buffalóakjöt á heimsmarkaðinum árið 2011*

Þúsund tonn
Bandaríkin 1.014
Rússland 900
Japan 725
Evrópusambandslöndin 450

Suður-Kórea

400
Íran 325
Mexíkó 300
Víetnam 275
Kanada 240
Egyptaland 220
Chíle 200
Önnur lönd 1.852
Samtals 6.901

* Heimild: USDA