Heimsmarkaðsverð mjólkur hækkaði
23.05.2016
Á GDT (Global Dairy Trade) uppboðsmarkaðinum í liðinni viku varð 2,6% verðhækkun og hefur verðið nú hækkað fjórum sinnum í viðskiptum með mjólkurvörur síðustu þrjá mánuði en í tveimur viðskiptum varð verðlækkun. Reyndar er alls ekki víst að þetta þýði að framundan séu betri tímar fyrir þær afurðastöðvar sem selja mikið magn í gegnum GDT þar sem um minnstu viðskipti var að ræða í langan tíma. Alls nam salan 18 þúsund tonnum að þessu sinni og stendur nú GDT verðstuðullinn í 674 stig sem er sá hæsti síðan í janúar.
Það hefur væntanleg ekki farið fram hjá nokkrum að miklir erfiðleikar hafa dunið yfir mjólkurframleiðslu heimsins síðustu misserin en til þess að setja málið í samhengi þá fór GDT verðstuðullinn yfir 1.000 stig í janúar 2013 og hélst þar fyrir ofan allt fram á mitt sumar 2014. Margir helstu sérfræðingar með viðskipti mjólkurvara spáðu því að svona yrði ástandið áfram og byggðist upp mikið eftirvænting meðal kúabænda og afurðastöðva víða um heim með tilheyrandi fjárfestingum í framleiðsluaðstöðu. Þróunin hefur þó verið á annan veg síðan í júlí 2014 en botninum var væntanlega náð 4. ágúst síðastliðinn þegar GDT verðstuðullinn mældist lægri en verið hefur síðustu 10 ár; 514 stig. Síðan þá hefur þróunin verið nokkuð stöðug og hefur stuðullinn verið þetta frá 830-630 stig/SS.