Beint í efni

Heimsmarkaðsverð lækkar enn

14.05.2012

Heimsmarkaðsverð á mjólkurafurðum heldur enn áfram að lækka. Framleiðsla í helstu útflutningslöndum á borð við Ástralíu og Nýja-Sjáland gengur vel, sem og í Evrópu og Bandaríkjunum. Aukningin í Ástralíu sl. 10 mánuði (frá upphafi framleiðsluársins þar) er til að mynda 4,1% og stefnir í að þar verði framleiðslan sú mesta í 6 ár. Eftirspurn eftir afurðunum eykst hins vegar ekki í sama takti og framleiðslan og fer verð því lækkandi. Nýjustu skýrslur frá FAO (matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna) gera ráð fyrir að mjólkurframleiðsla heimsbyggðarinnar aukist um 2,7% á þessu ári, en neyslan um 1,7%. Lækkandi heimsmarkaðsverð kemur sér illa fyrir kúabændur hér á landi, þar sem skilaverð fyrir mjólk umfram greiðslumark, sem skv. lögum skal flutt úr landi verður lægra.

Frá því í maí í fyrra hefur heimsmarkaðsverð á undanrennudufti fallið úr 3.400 USD/tonn niður í 2.500 USD/tonn í dag. Á sama tíma hefur smjörverðið fallið úr 4.600 USD/tonn niður í 3.000 USD/tonn í maí 2012. Lunginn af umframmjólkinni hefur farið úr landi á þessu formi, sem undanrennuduft og smjör, lítils háttar sem skyr til Bandaríkjanna og Finnlands.

 

Heimild: Dairy Industry Newsletter