Heimsmarkaðsverð á undanrennudufti hækkar um 71%
27.06.2007
Eins og frá var greint hér á síðunni fyrir skemmstu hefur heimsmarkaðsverð á flestum mjólkurafurðum hækkað mjög mikið á þessu ári. Eins og fyrr greinir eru ástæður þessa aukin eftirspurn á stórum mörkuðum eins og í Kína og samdráttur í framleiðslu í Ástralíu og Suður-Ameríku. Þá eru stór útflutningslönd eins og Nýja-Sjáland komin að þolmörkum í framleiðsluaukningu. Á vef markaðsskrifstofu bandaríska landbúnaðarráðuneytisins er að finna greinargóðar upplýsingar um nýjustu tölur í þessum efnum.
Eins og sjá má á grafinu hér að neðan eru hækkanirnar þar sem af er árinu verulegar. Smjörið hefur hækkað hlutfallslega mest, um 95%, hefur farið úr 2200$/tonn í 4100$/tonn. Þá hefur verð á undanrennudufti (mjólkurpróteini) farið úr 3150$/tonn í 5400$/tonn. Það er hækkun upp á 2250$ á tonn, eða 71%.
Áhrifa þessara hækkana er farið að gæta víða. T.d. var greint frá því í gær að þýska mjólkuriðnaðarfyrirtækið Nordmilch hyggðist hækka verð til framleiðenda um a.m.k. 10% og að það stefndi að því að ná svipuðu verði til framleiðenda og önnur sambærileg fyrirtæki. Reyndar hefur verðið sem fyrirtækið hefur greitt bændum fyrir mjólkina verið svo lágt að fjöldi bænda hefur hætt viðskiptum og sagt skilið við fyrirtækið. Verð á mjólkurvörum í verslunum hefur einnig hækkað á síðustu vikum um 10-20% og mega þýskir neytendur eiga von á frekari hækkunum á næstunni, einkum á ostum og smjöri.