Heimsmarkaðsverð á smjöri og undanrennudufti
06.05.2009
Samkvæmt heimildum úr Dairy Industry Newsletter hefur heimsmarkaðsverð á smjöri og undanrennudufti heldur þokast uppávið síðustu vikur. Virðist því sem botninum hafi verið náð í janúar-febrúar þegar tonnið af þessum vörum var komið niður í 1.700 USD pr. tonn. Þarf að fara 5 ár aftur í tímann til að finna jafn lágt verð og þá var. Verðið á smjöri er núna um 1.800 USD pr. tonn og duftið er á 1.950 USD tonnið.
Eins og flestir þekkja, fer langmest af þeirri mjólk sem framleidd er umfram þarfir innanlandsmarkaðarins, úr landi í formi þessara vara, fitan sem smjör og próteinið sem undanrennuduft. Til að framleiða tonn af smjöri þarf ca. 21.200 lítra af mjólk og í tonn af undanrennudufti þarf ca. 11.500 lítra. Gengi þess græna er nú um 127 kr, þannig að ef heimsmarkaðsverð á smjöri og dufti er reiknað yfir í kr/ltr mjólkur, fást út úr því um 29 kr/ltr. Þá er eftir að greiða kostnað við vinnsluna, einnig er langur greiðslurfrestur á vörum sem seldar eru á heimsmarkaði.
Í þessu samhengi ber að líta til þess að talsverður hluti af útfluttu smjöri fer til Evrópu, þar sem Ísland hefur 350 tonna tollfrjálsan kvóta og verðið þar er amk. 15% hærra en á heimsmarkaði. Einnig er mikill virðisauki falinn í því að flytja próteinið út í form skyrs, fremur en undanrennudufts. Salan á því hefur hins vegar verið mun minni en vonir hafa staðið til.
Þá bendir margt til þess að eftirspurn eftir mjólkurvörum sé heldur að taka við sér, auk þess sem mjólkurframleiðslan á suðurhvelinu, t.d. á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu hefur verið minni en vænst var vegna þurrka. Verðið ætti því að halda áfram að hækka.