Heimsmarkaðsverð á mjólkurafurðum í sögulegu hámarki – útflutningsbætur afnumdar hjá ESB
18.06.2007
Verð á mjólkurafurðum er í sögulegu hámarki um þessar mundir og mjólkurafurðavísitala FAO, sem mælir verðhækkanir mjólkurafurða á heimsmarkaði hefur hækkað um 46% frá því í nóvember 2006 fram til dagsins í dag.
Í Bandaríkjunum hefur mjólkurverð til bænda hækkað um 30% á yfirstandandi ári og búist við enn frekari hækkunum á næstunni. Ekki er gert ráð fyrir mikilli aukningu á innveginni mjólk þar í landi, þar sem verð á fóðri er frekar hátt um þessar mundir. Þá hefur stjórn Fonterra, sem vinnur úr 95% af mjólkurframleiðslu nýsjálenskra bænda og er stærsta útflutningsfyrirtæki heims á mjólkurvörum, nýverið gefið út mjólkurverð komandi framleiðsluárs, sem hefst í lok júlí n.k. Það hækkar um 27% frá fyrra ári og er helsta ástæðan stórhækkað verð á mjólkurafurðunum, einkum ostum, smjöri og mjólkurdufti. Er þetta hæsta verð sem sést hefur þar um slóðir.
Samkvæmt frétt dansk/sænska mjólkuriðnaðarrisans Arlafoods ákvað Evrópusambandsstjórnin á fimmtudaginn var að afnema útflutningsuppbætur frá og með júní 2007. Bæturnar falla niður nokkrum árum áður en áætlað hafði verið og er ástæðan sú að eftirspurn eftir mjólkurvörum hefur aukist mikið á heimsmarkaði og er nú skortur á mjólkurafurðum. Skorturinn stafar fyrst og fremst af aukinni eftirspurn eftir mjólkurafurðum í Asíu, þurrkum í Ástralíu og flóðum í Suður Ameríku en hið tvennt síðarnefnda hefur haft mjög neikvæð áhrif á mjólkurframleiðsluna á þessum svæðum.
Fulltrúar Arlafoods segja að nauðsynlegt verði að hækka verð á mjólkurvörum, sem fara til landa utan ESB. Danskur mjólkuriðnaður fékk tæpa 5,7 milljarða í útflutningsbætur á árinu 2006, og verður því að hækka verðið sem því nemur. Þess má geta að útflutningsbætur voru aflagðar hér á landi fyrir einum og hálfum áratug. Þá er ástæða til að undirstrika það að hér á landi ríkir verðstöðvun á mjólkurvörum, heildsöluverð þeirra hefur verið óbreytt í tæpa 18 mánuði og á undan síðustu hækkun heildsöluverðs ríkti verðstöðvun í 3 ár.