Heimsframleiðsla mjólkur eykst enn
18.05.2016
Fyrstu tvo mánuði þessa árs jóks heimsframleiðsla mjólkur um 3,4% í samanburði við sama tímabil í fyrra segir í skýrslu frá samtökunum MMOEB (Milk Market Obersvatory Economic Board), en samtökin taka saman reglulega upplýsingar um framleiðslu helstu útflutningslanda mjólkurvara: Evrópusambandsins, Bandaríkjanna, Nýja-Sjálands, Ástralíu, Úrúgvæ og Argentínu.
Mest jókst framleiðslan innan Evrópusambandsins, eða um 5,2%, og þar voru fremst í flokki Þýskaland og Írland. Þar á eftir komu svo Bandaríkin með 2,3% en Úrúgvæ jók einnig mjólkurframleiðsluna umtalsvert. Mjólkurframleiðslan í Nýja-Sjálandi hefur hins vegar staðið nokkuð í stað miðað við sama tíma í fyrra en í bæði Ástralíu og Argentínu dróst framleiðslan heldur saman miðað við fyrir ári síðan. Vegna hinnar miklu aukningar á heimsvísu er svokallað heimsmarkaðsverð mjólkur enn lágt og afurðastöðvaverð til kúabænda því enn með lægsta móti og oft í kringum 30-40 krónur á líterinn/SS.