Beint í efni

Heimildir til núverandi kerfis við tollkvóta í kjöti ekki í lagi?

25.07.2011

Samtök verslunar og þjónustu leituðu sl. sumar til Umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir þremur reglugerðum um tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum og hafa verið í gildi frá árinu 2005. Nú hefur Umboðsmaður Alþingis birt svar sitt við kvörtuninni og tekur hann ekki afstöðu til kvörtunarinnar sjálfrar þar sem hann telur hreinlega að ákveðin ákvæði tollalaga og búvörulaga ekki standast stjórnarskrá. Er Umboðsmaður þar að vísa til þeirra heimilda sem ráðherra hefur til álagningu tolla á innflutt kjöt og segir hann á heimasíðu sinni m.a.:

 

„Hinn 24. júní 2010 leituðu Samtök verslunar og þjónustu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir því að í þremur tilgreindum reglugerðum um tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum, settum af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, væri notast við verðtolla fremur en magntolla. Samtökin drógu í efa að það fyrirkomulag stæðist lög og töldu jafnframt að við ákvörðun fyrirkomulagsins hefði ekki verið gætt að lögmætum hagsmunum innflutningsaðila. Efni kvörtunarinnar laut þannig að stjórnsýslulegri meðferð ráðherra á þeim valdheimildum sem honum eru fengnar í lögum. Áður en kom til umfjöllunar um það atriði taldi umboðsmaður nauðsynlegt að athuga hvort lagagrundvöllurinn sem reglugerðirnar byggðust á væri fullnægjandi miðað við þær kröfur sem leiða af stjórnarskrá. Sú athugun leiddi til þeirrar niðurstöðu umboðsmanns að heimildir, sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eru veittar til ákvörðunar um álagningu tolla samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 3. mgr. 12. gr. sömu laga, sbr. 65. gr. A laga nr. 99/1993, væru ekki í samræmi við kröfur um skattlagningarheimildir sem leiða af ákvæðum 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár. Umboðsmaður tilkynnti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármálaráðherra og forseta Alþingis um þá niðurstöðu sína með áliti, dags. 18. júlí 2011.“

 

Í fréttum Ríkisútvarpsins í gær kom svo fram að viðbrögð Samtaka verslunar og þjónustu eru þau að þau ætla strax í ágúst að láta reyna á „kerfið“ með því að flytja inn kjöt utan heimilda. Þess má geta að um er að ræða hámark 5% þess magns sem selt er innanlands af hverri kjöttegund en hverju aðildarlandi WTO er heimilt að vernda að fullu, með tollum, allt að 95% innlendrar framleiðslu á kjöti og gildir það jafnt á Íslandi sem í Bandaríkjunum/SS.

 

Álit Umboðsmanns Alþingis í heild má lesa hér: http://www.umbodsmadur.is/ViewCase.aspx?Key=1436&skoda=mal