
Fjölmenni við vígslu próteinverksmiðju Heilsupróteins ehf.
22.10.2017
Í gær laugardag vígði Heilsuprótein ehf. nýja verksmiðju sína á Sauðárkróki að viðstöddu fjölmenni. Fyrirtækið er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólkursamsölunnar ehf. og er verksmiðjan staðsett í nýrri viðbyggingu í Mjólkursamlagi KS. Starfsemi verksmiðjunnar felst í að nýta þá mysu sem til fellur við ostaframleiðslu í afurðarstöðvum á norðurlandi.
Mysan er síuð og þurrkuð til þess að skilja próteinið (sem kemur út í duftformi) að frá öðrum innihaldsefnum, en mysuprótein hefur lengi verið einn vinsælasti próteingjafi í ýmis fæðubótarefni ætluð íþróttafólki, en duftið hentar að sjálfsögðu einnig í vörur ætlaðar öllum. Við aðskilnaðinn á próteininu frá öðrum efnum í mysunni verður til sykurvatn, sem verður síðan unnið áfram til framleiðslu á etanóli, sem flestir þekkja undir nafninu vínandi.
Á vígsluathöfninni fluttu Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Ari Edwald stjórnarformaður Heilsupróteins ávörp. Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri í Skagafirði afhenti Heilsupróteini gjöf frá þeim sveitarfélögum sem eru með afurðarstöð sem sendir mysu til verksmiðjunnar, og Pálmi Vilhjálmsson stjórnarformaður Heilsupróteins og mjólkurverkfræðingur fór lauslega yfir framleiðsluferlið. Sigurjón R. Rafnsson sá um veislustjórn og Karlakórinn Heimir söng á milli atriða.
Við sjálfa vígsluathöfnina voru fengnir fyrrverandi landbúnaðar- og umhverfisráðherrar, þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Guðmundur Bjarnason, Steingrímu J. Sigfússon, Jón Bjarnason og Einar K. Guðfinnsson.
Gestum var svo gefinn kostur á að taka hring inn í vélarúminu, og kynna sér ýmsar nýjungar í vörum sem mjólkuriðnaðurinn er að vinna að í samstarfi við utanaðkomandi aðila, svo sem skyrís, rjómalíkjör og Ísey skyrboozt.