Beint í efni

Heilsufar bænda í brennidepli

16.04.2018


Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga í samstarfi við kvenfélög í Suður-Þingeyjarsýslu, Bændasamtökin og Guðmund Hallgrímsson hafa í vetur unnið að verkefni sem miðar að því að efla heilsu bænda. Boðað er til fundar í Breiðumýri þriðjudaginn 17. apríl kl. 20.00 þar sem fundarefnið er „Heilsa og lífsgæði“.
 
Guðmundur Hallgrímsson hefur heimsótt á þriðja hundrað býli á síðustu árum undir merkjum „Búum vel“ vinnuverndar-verkefnisins sem Bændasamtökin og nokkur búnaðarsambönd hafa staðið fyrir. „Það er mikið álag sem fylgir búskapnum. Menn vinna mikið einir og alla daga, oft lítið um frí og ekki alltaf auðvelt að bregða sér frá. Maður verður var við að þetta taki verulega á andlegu hliðina, oft án þess að menn geri sér grein fyrir því,“ segir  Guðmundur og bendir á að það sé ekki síður mikilvægt að huga að andlegri en líkamlegri heilsu.
 
Sjálfsagt mál að skipta um olíu á vélunum – en heilsan gleymist
 
Guðrún Tryggvadóttir, formaður Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga og bóndi, hefur átt veg og vanda að skipulagningu fundarins í Breiðumýri ásamt Guðmundi. „Við funduðum með Unnsteini Inga Júlíussyni, yfirlækni heilsugæslunnar á Húsavík, og ræddum útfærslur við hann. Ákveðið var að halda almenna kynningu með bændum til að vekja fólk til umhugsunar um heilsu og vellíðan almennt auk þess að gera menn meðvitaðri um málefnið. Það er bændum eðlilegt og sjálfsagt að viðhaldi sé sinnt á vélum og tækjum en stundum gleymist að heilsa okkar sé eitthvað sem þurfi að huga að,“ segir Guðrún. Hún segir að markmiðið sé að vekja fólk til umhugsunar en líka að kanna áhuga fundargesta á skipulagðri heilbrigðisþjónustu sem miðar að bændum sem starfsstétt.
 
Læknir og sálfræðingur miðla af reynslu sinni
 
Sem fyrr segir verður kynningarfundurinn þriðjudaginn 17. apríl kl. 20.00 í Breiðumýri undir yfirskriftinni „Heilsa og lífsgæði“.  Unnsteinn Ingi Júlíusson læknir flytur erindi um heilsufar almennt og ábyrgð hvers og eins á eigin heilsu. Á eftir honum mun Hjalti Jónsson sálfræðingur fjalla um andlega heilsu, einkenni og áhættu þunglyndis. Í kjölfarið verða umræður um viðfangsefnið og næstu skref. Fundarstjóri er Eiríkur Blöndal, stjórnarmaður í Bændasamtökunum.
 
Allir eru velkomnir. Boðið er upp á kaffiveitingar og enginn aðgangseyrir.