Heilgrillað naut á Akureyrarvöku í boði Landssambands kúabænda
26.08.2011
Í tilefni af 25 ára afmæli samtakanna býður Landssamband kúabænda, í samvinnu við Norðlenska og Bautann, gestum Akureyrarvöku að gæða sér á heilgrilluðu nauti á morgun, laugardaginn 27. ágúst milli kl. 13 og 15. Grillið verður staðsett á bílastæðinu við Skipagötu í miðbæ Akureyrar.
Í boði er 227 kg skrokkur af 19 mánaða ungnauti frá Sveinbirni og Huldu á Búvöllum í Aðaldal. Með steikinni verður borið fram grænmeti frá garðyrkjustöðinni Brúnalaug í Eyjafjarðarsveit og piparsósa frá Norðlenska. Tæpan sólarhring tekur að elda herlegheitin og hefst eldamennskan nú síðdegis á föstudegi. Myndin hér að neðan var tekin við það tækifæri./BHB