Beint í efni

Heildsöluverð mjólkur hækkað um 3,8% frá 2016

19.02.2018

Í tilkynningu frá ASÍ kemur fram að verð á mat­vöru hef­ur í heild­ina lækkað um 1,9% á síðustu tveim­ur árum. Má þá lækkun helst rekja til geng­is­styrk­ing­ar krónunnar og þar af leiðandi lægra verðs á innfluttum matvörum. Und­an­tekn­ing­in á þessu er verð á mjólk­ur­vör­um en sá und­ir­flokk­ur mat­vör­unn­ar sker sig úr og hef­ur hækkað um 7,4% á tímabilinu. Er í tilkynningu ASÍ lagt upp með að hækk­un á mjólk­ur­vör­um skýrist af því að lít­il eða eng­in sam­keppni sé á Íslandi á mjólk­ur­vörumarkaði og því svig­rúm til hækk­ana þrátt fyr­ir ytri aðstæður eins og geng­is­styrk­ingu.

Innflutningur mjólkurafurða hefur þrefaldast á síðust fimm árum og vinnsla smærri afurðastöðva hefur rúmlega fjórfaldast á sama tíma.  Samkeppni á mjólkurvörumarkaði hefur þess vegna aukist verulega síðustu árin. Réttar skýringar á þessari verðþróun eru að erlendar vöru lækka vegna styrkingar krónunnar en innlendar vöru hækka vegna innlendra hækkana, meðal annars launa.

Tekið skal fram að heildsöluverð á mjólkurvörum er verðlagsnefnd nær til hefur einungis hækkað um 3,8% á umræddum tíma, frá janúar 2016 til janúar 2018. Hækkaði heildsöluverð á mjólk um 2,1% 1. júlí 2016 og 1,7% 1. janúar 2017. Því er ljóst að verðhækkun umfram það má rekja til aukinnar álagningar verslunarinnar.

Verðlagsnefnd búvara ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. Hækkun á heildsöluverði mjólkur má meðal annars rekja til mikilla launahækkanna á umræddu tímabili og þar af leiðandi hærri framleiðslukostnaðar. Laun hafa hækkað um 11% frá 2015 til 2017 en á sama tíma hefur verð á mjólk til bænda hækkað um 3,6%.

Hér má nálgast verðlagsgrundvöll kúabús og gjaldaliði hjá mjólkursamlögum sem verðlagsnefnd vinnur eftir hverju sinni.