Beint í efni

Heildsöluverð á mjólk breytist ekki um áramótin

22.11.2004

Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum, sem nefndin verðleggur, breytist ekki nú um áramótin. Þetta þýðir að verð til neytenda er óbreytt 3. árið í röð. Hins vegar hækkar verð til bænda um 3,4% sem er í samræmi við hækkun á vísitölu neysluverðs. Fulltrúar mjólkuriðnaðarins hafa lýst því yfir að ekki komi til verðbreytingar á öðrum mjólkurvörum að svo stöddu.

 

Fram kom á blaðamannafundi sem Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, hélt í dag að, ákvörðunin hefði m.a. verið tekin vegna þess að hagræðingaraðgerðir í landbúnaði hafi skilað umtalsverðum árangri á undanförnum árum. „Þetta verður því þriðja árið í röð, eða nánast það fjórða, sem heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum helst óbreytt og er í samræmi við það samkomulag um að neytendur njóti í meira mæli ávinnings hagræðingar,“ sagði landbúnaðarráherra.

Guðni sagði að þessar góðu fréttir bættust við þær góðu fréttir undanfarna daga og átti þá við skattalækkanir ríkisstjórnarinnar fyrir helgi og vaxtalækkanir Íbúðarlánasjóðs í morgun. „Þetta er þýðingarmikið innlegg í umræðuna um stöðugleikann í þjóðfélaginu. Þetta hefur auðvitað mikla þýðingu fyrir neytendur í landinu,“ sagði Guðni.

Síðustu almennu kostnaðarhækkanir sem settar voru í mjólkurverð til neytenda eru frá október 2002. Á fundinum kom fram að miðað við þróun almenns verðlags og áætlun fyrir 2005 má ætla að þessi ákvörðun þýði um 500 milljón króna lægri útgjöld fyrir íslenska neytendur á árinu 2005. Með sama hætti má áætla að útgjöld hafi verið 350 milljónum króna lægri á árinu 2004, eða um það bil 850 milljónir á tímabilinu 2004-2005.

Þá segir að miðað við þessa stöðu mála, má telja að staða mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaðarins sé traust og greinin sé vel í stakk búin til að stuðla að lækkuðu vöruverði til neytenda og styrkja þar með samkeppnisstöðu sína.

Nýr mjólkursamningur var undirritaður 10. maí sl. um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og gildir samningurinn frá 1. september 2005 til 31. ágúst 2012. Markmið þessa samnings eru:

· Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði.
· Að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda.
· Að viðhaldið verði þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.
· Að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni.
· Að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu með eðlilegum hætti.
· Að gætt sé sjónarmiða um dýravelferð og heilnæmi afurða.