Beint í efni

Heildarsamtök, dýravelferð og bændageð

01.04.2023

Fjölmargar ályktanir voru samþykktar inn í stefnumörkun Bændasamtakanna á nýafstöðnu Búnaðarþingi. Ber þar helst að nefna kröfu um upprunamerkingu matvæla þannig að neytendur hafi möguleika á upplýstu vali, stofnun heildarsamtaka í landbúnaði í samvinnu við Samtök fyrirtækja í landbúnaði og að fjármögnunarþak búvörusamninga verði afnumið.

Einnig var samþykkt að samtökin beiti sér fyrir því að komið verði á sameiginlegum hagtölugrunni um öll atriði sem hafa áhrif á íslenskan landbúnað. Farið var yfir tollverndina og gerð krafa um að sömu kröfur séu gerðar til innlendra og innfluttra matvara. Þar að auki var áhersla lögð á að Bændasamtökin haldi áfram að vinna að verkefninu Bændageð sem byggir á vitundarvakningu, forvörnum og jafningafræðslu til bænda. Þegar koma upp erfið dýravelferðarmál var ályktað að skipað verði viðbragðsteymi breiðs hóps fagaðila sem starfar við þær aðstæður.