
Heildarsala á mjólkurafurðum aldrei verið meiri
10.03.2017
Aðalfundur Samtaka Afurðastöðva í Mjólkuriðnaði (SAM) vegna 31. starfsárs félagsins var haldin í gær, 9. mars 2017.
SAM safnar og vinnur tölur um framleiðslu, sölu og birgðir mjólkurafurða á Íslandi. Upplýsingarnar skila tölfræði sem nýtt er til að fylgjast með innanlandsmarkaði mjólkurafurða, auk þess sem upplýsingar eru veittar til aðildarfélaga, Hagstofu Íslands, tölfræðistofnunar Evrópusambandsins (Eurostat) og alþjóðlegu mjólkursamtakanna IDF (International Dairy Federation). Skýrslurnar eru einnig grunnur að útreikningi á mánaðarlegum verðtilfærslum, sem reiknaðar eru milli aðildarfélag SAM á grundvelli heimildarákvæðis í búvörulögum.
Helstu atriði í ársskýrslu SAM
- Mjólkurframleiðendur(kúabú) í árslok voru 596 og hafði fækkað um 40 á árinu, en það er meiri fækkun en samanlagt síðustu þrjú ár þar á undan. Frá 1980 hefur mjólkurframleiðendum(kúabúum) fækkað um 75%.
- Heildarsala mjólkurafurða hvort sem litið er á fitu eða próteingrunni, hefur ekki mælst meiri frá því að SAM hóf að reikna sölu mjólkurafurða á fitu og próteingrunni árið 1993.
- Milli 2015-2016 varð 1,7% aukning í sölu mjólkurvara.
- Sala mjólkur dróst saman árið 2016 en jókst í skyri, smjöri, ostum og mjólkurdufti.
- Sala nýmjólkur eykst fjórða árið í röð eftir samdrátt í áratugi þar á undan.
- Útflutningur mjólkurafurða jókst um 53% frá árinu 2015 en þar af jókst hann um 77% á skyr og skyrdrykkjum.
- Innflutningur osta hefur aukist síðustu ár og jókst síðasta árið um 60 tonn, eða 23% .
- Birgðir mjólkurvara í landinu minnkuðu árið 2016.
Ný stjórn kosin
Á aðalfundinum var kosin ný stjórn SAM og tekur Jóhanna Hreinsdóttir, bóndi í Káraneskoti, við formennsku en hún var áður varaformaður samtakanna. Tekur hún við formennsku af Rögnvaldi Ólafssyni. Jóhann Nikulásson, bóndi Stóru-Hildisey I var kosinn varaformaður og meðstjórnendur eru Árni Sigurðsson, bóndi Marbæli og Egill Sigurðsson, bóndi Berustöðum.
Helstu kafla úr ársskýrslu Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði má finna með því að smella hér.