Beint í efni

Heildarmarkaður mjólkurvara stækkar í ár

26.05.2012

Alþjóða matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) spáir því að heildarmarkaður mjólkurvara stækki um 4% í ár, en eins og fram hefur komið er mjólkurframleiðslan á heimsvísu að aukast mikið þessi misserin. Aukningin hefur verið meiri en eftirspurnin framan af árinu sem hefur leitt til verðlækkunar á heimsmarkaðinum, en talið er að heimsmarkaðsverðið falli þó ekki stórlega vegna hinnar auknu neyslu, sér í lagi í Asíu og Norður-Afríku.

 

Samkvæmt skýrslu FAO mun verða um 10% neysluaukning í Kína en þar í landi er mjólkurframleiðslan einnig að aukast verulega, en þó ekki nema um 5% svo markaðurinn tekur vel við aukinni framleiðslu í öðrum löndum.

 

Kína er lang stærsti innflytjandi á mjólkurvörum en innflutningurinn nemur 5,9 milljörðum kílóa í ár. Þar á eftir kemur svo Egyptaland með 3,5 milljarða kg innflutning og í þriðji stærsti innflytjandi mjólkurvara er Sádi-Arabía með 3,2 milljarða kg. Næstu lönd þar fyrir neðan eru Algería (2,7 milljarðar kg), Mexíkó (2,5 milljarðar kg) og svo Rússland (2,1 milljarðar kg)/SS.