Beint í efni

Heilbrigðisskoðun kynbótahrossa á Landsmóti 2012 – “Klár í keppni”

18.06.2012

Samkvæmt ákvörðun sem tekin var á fundi fagráðs í hrossarækt þann 16. desember 2011 og kynnt var á fundum með hrossaræktendum á liðnum vetri munu einstaklingssýnd kynbótahross á landsmótinu í Reykjavík undirgangast samskonar heilbrigðisskoðun „Klár í keppni“ eins og hross í hefðbundnum keppnisgreinum mótsins. Megin tilgangur skoðunarinnar er að kanna ástand kynbótahrossanna að þessu leiti til samanburðar við keppnishross mótsins. Skoðunin skal fara fram 2 – 24 tímum fyrir einstaklingsdóm. Komi hross ekki til heilbrigðisskoðunar verður það ekki tekið til dóms.

Heilbrigðisskoðunin felur í sér eftirfarandi atriði:

-          Skoðun á almennu ástandi (holdafari, eitlum, öndun auk líkamshita og hjartahljóða ef ástæða er til)

-          Fætur þreifaðir og heltiskoðun (hreyfingar á feti og brokki á hörðu undirlagi)

-          Skoðun á munni (fremsti hluti munnsins án deyfingar)

 

Ef einhver eftirfarandi atriða finnast er hestur dæmdur „óhæfur til sýningar” og fær ekki að fara í braut:

-          Horaður (undir 2,5 í holdastigun), hiti, óeðlileg öndun og hjartahljóð, bólgnir eitlar

-          Helti, bólga í sinum og liðum, dýpri sár, aumir hófar

-          Umfangsmikil, djúp eða krónísk sár í munni. Beinhimnubólga og/eða sár yfir kjálkabeini á tannlausa bilinu. 

Ákvörðun um að hestur sé „óhæfur til sýningar“ er tekin af ábyrgðardýralækni mótsins. 

 

Tímasetningar heilbrigðisskoðana:

Sunnudagur 24. júní               11.00 - 21.00
Mánudagur   25. júní              07.00 - 21.00
Þriðjudagur  26. júní              07.00 - 21.00
Miðvikudagur 27. júní           07.00 - 17.00

Heilbrigðisskoðunin mun fara fram á stóra vellinum (upphitunarvellinum) austan við dómpall á móts við hringvöllin sem gerður var árið 2000.

 

Frekari kynning verður á knapafundi sunnudaginn 24. júní.       

 

Eftir einstaklingsdóm og yfirlitssýningu verður um að ræða hefðbundna áverkaskoðun kynbótahrossa með þeirri undantekningu að uppruni áverka í munni, ef einhverjir eru, verða kannaður nánar af dýralækni.

Ábyrgðardýralæknir mótsins hefur yfirumsjón með þessum skoðunum. Hann mun verða kallaður til ef vafi leikur á hvort hestur sé hæfur til sýningar.

 

Í hlutarins eðli liggur að slík skoðun sem hér um ræðir er nokkuð tímafrek og útheimtir skipulagningu og mannafla svo allt gangi snurðulaust fyrir sig. Þarna legg ég sem fyrr allt traust mitt á ræktendur og knapa.

 

Guðlaugur V. Antonsson

Hrossaræktarráðunautur BÍ.