
“Heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk”
21.03.2023
Í dag er alþjóðadagur skóga en af því tilefni gaf skógasvið FAO út myndband undir yfirskriftinni "Heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk", sem kemur í fyrsta sinn út á íslensku. Á vef skógræktarinnar segir að í myndbandinu sé bent á að vernd og sjálfbær nýting skóga sé ein besta leiðin til verndar jörðinni og okkur sjálfum. Heilbrigðir skógar skipti sköpum fyrir heilbrigði jarðarinnar, hvernig sem á er litið, allt frá lífsviðurværi og næringu upp í líffjölbreytni og umhverfið. En að skógunum steðjar ógn. Tíu milljónum hektara skóga var eytt á hverju ári í heiminum á árunum 2015 til 2020. Skordýraplágur skaða um 35 milljónir hektara skóga árlega. Árið 2015 spilltu gróðureldar um það bil 98 milljónum hektara skóga í heiminum. Það er undir okkur sjálfum komið að halda hlífiskildi yfir þessum dýrmætu náttúruauðlindum. Að vernda skóga, breiða þá út og stuðla að heilbrigði skóganna er líka okkur sjálfum fyrir bestu þegar upp er staðið. Við þurfum heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk.
Skógræktin hefur frá árinu 2014 gefið út myndband í tilefni af alþjóðlegum degi skóga. Að þessu sinni er myndbandið íslensk útgáfa af myndbandi skógasviðs FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem nú kemur út á allnokkrum tungumálum og jafnframt er unnið að því að hægt verði að velja skjátexta við myndbandið á 40 tungumálum, þar á meðal íslensku.