Hefur mjólkað 80.000 kg á fyrsta mjaltaskeiði
27.04.2015
Það þykir alla jafna nokkuð frambærilegt ef kýr ná að mjólka 80.000 kg mjólkur á lífsleiðinni. Það er hins vegar einsdæmi að kýr nái slíku magni á einu og sama mjaltaskeiðinu. Kýrin 3603 á búi bræðranna Asger og Christian Ladefoged, við Hobro á Jótlandi hefur náð slíku afreki. Hún bar á gamlárskvöld 2009 og hefur síðan þá mjólkað samfleytt í rúmlega 1.900 daga, að jafnaði 41,7 kg/dag. Hún var sædd fimm sinnum árið 2010, festi eigi fang en hélt áfram að mjólka og mjólka. Fyrstu fjögur árin var dagsnyt hennar nokkuð stöðug, á bilinu 43-48 kg/dag en haustið 2014 fékk hún júgurbólgu og við það lækkaði nytin í 25 kg/dag.
Þeir bræður eru með einkahlutafélag um búreksturinn, sem samanstendur af 500 Holstein kúm, legubásafjósi með sandundirlagi í básunum, átta Lely A3 mjaltaþjónum og er meðalnytin 12.300 kg af orkuleiðréttri mjólk. Kýrin 3603 hefur að jafnaði komið þrisvar á dag til mjalta frá því hún bar, mjaltahraðinn er 4 kg/mín og ásetning mjaltatækja hefur misheppnast í einungis 32 skipti, af tæplega 6.000. Kýrin 3603 er með sterka fætur og heilbrigðar klaufir, þrátt fyrir að vera í mjög í góðum holdum, en hún vegur 1.030 kg samkvæmt síðustu mælingu./BHB
Af vikinggenetics.dk
![]() |
Kýrin 3603 á búi Ladefoged bræðra við Hobro á Jótlandi |