Hefur gefið sæði fyrir 350 milljónir kr!
27.03.2015
Norska ræktunarfélagið Geno veitir ár hvert útflutningsverðlaun félagsins. Verðlaunin falla í skaut ræktenda þeirra nauta sem gefið hafa af sér mestu útflutningsverðmætin á undangengnu ári. Þann 12. mars sl. fengu Torbjørg og Ommun Braut, ræktendur nautsins 10177 Braut sem kom í heiminn á búi þeirra, Braut Samdrift, 23. ágúst 2002. Er þetta í fimmta skiptið sem þeim hlotnast verðlaun þessi fyrir nautið. 10177 Braut er enn við bestu heilsu og var á dögunum tekið úr honum sæði í 1.000. skiptið í nautastöð Geno á Hallsteingård við Þrándheim. Alls nemur verðmæti sæðisins úr honum 20,1 milljón norskra króna, eða sem nemur tæplega 350 milljónum íslenskra króna. Þar af nema útflutningsverðmætin 9,1 milljón norskra króna. Ræktendur hans hafa fengið 140.000 norskar krónur í arð, eða sem nemur 2,4 milljónum íslenskra króna. 10177 Braut er ekki notaður í Noregi lengur, en er mjög eftirsóttur erlendis og hafa til að mynda verið seldir 73.000 skammtar úr honum í Hollandi einu. Þess utan er sæði úr honum á boðstólum víða um lönd, en í viku hverri eru teknir úr honum allt að 2.000 sæðisskammtar./BHB