Haustfundurinn í Þingborg
14.10.2008
Á annað hundrað manns sótti fyrsta haustfund Landssambands kúabænda í Þingborg í gærkvöldi.
Er óhætt að fullyrða að nokkuð er um liðið síðan svo fjölmennur kúabændafundur var haldinn á
þeim stað. Umræður voru líflegar og afar málefnalegar, en um 20 manns tóku til máls, auk
framsögumanns Þórólfs Sveinssonar formanns LK og Einars Kristins Guðfinnssonar,
ráðherra landbúnaðarmála.
Framsaga formanns fjallaði að þessu sinni nær eingöngu um verðlagsmál. Kostnaður við
mjólkurframleiðsluna hefur aukist alveg ævintýralega á undanförnu ári, t.d. hafa stórir liðir
eins og kjarnfóður og áburður hækkað um rúm 70%. Þá hefur verið boðuð 50-100% hækkun
á áburði til viðbótar næsta vor, en bændur þurfa jafnan að huga að kaupum á honum í
nóvember-janúar n.k. Þrátt fyrir að mjólkurverð til bænda hafi hækkað talsvert 1. apríl sl.,
þá hafa verðhækkanir á aðföngum haldið áfram af fullum þunga, því er alveg ljóst að við
núverandi verð er ekki hægt að búa lengur. Þó er víst að í núverandi ástandi efnahagsmála
fær enginn allt það sem hann telur sig eiga rétt til. Afkoma mjólkuriðnaðarins er afleit um
þessar mundir og því ljóst að hann þarf nokkra leiðréttingu, en verð til neytenda hefur lítið
hækkað á árinu.
Það var auðheyrt á máli þeirra sem til máls tóku á fundinum, að leiðrétting á mjólkurverði
þann 1. nóvember er algjör lífsnauðsyn, að öðrum kosti er rekstur margra búa í fullkomnu
uppnámi. Ekki er síður brýnt að grípa til myndarlegra vaxtalækkana, þegar í stað. Það kom
fram í máli margra, ráðherra sem og annarra, að forsendur hávaxtastefnunnar hafa brostið
algerlega á nokkrum dögum. Landbúnaðurinn, líkt og annað atvinnulíf þarf því nauðsynlega
á því að halda að vextir lækki án frekari tafar.
Fundarmenn í Þingborg
F.v. Þórólfur Sveinsson, formaður LK, Einar Kristinn Guðfinnsson, ráðherra landbúnaðarmála og Sigurður Loftsson í Steinsholti, formaður Félags kúabænda á Suðurlandi.
F.v. Elvar Eyvindsson á Skíðbakka 2, Jóhann Nikulásson í Stóru-Hildisey 2, Björn Friðrik Brynjólfsson, aðstoðarmaður Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Birna Þorsteinsdóttir á Reykjum.
Formaður LK í ræðustól.
Einar Kristinn í ræðustól. Birna Þorsteinsdóttir á Reykjum var fundarstjóri.