Beint í efni

Haustfundir halda áfram

20.10.2011

Yfirreið formanns og framkvæmdastjóra LK um landið heldur áfram. Í gær voru tveir fundir, að Breiðumýri í Reykjadal og Hótel KEA á Akureyri. Ágæt mæting var á báða fundina og afar líflegar umræður. Mikil umræða var að Breiðumýri um stefnumörkunina, inntak hennar og áherslur. Má þar nefna takmarkanir á bústærð, aðgengi að ræktarlandi og áherslur í ræktunarmálum. Á Akureyrarfundinum var talsverð umræða um nýliðun, hugmyndir um skipulagða blendingsrækt og stöðu búvörulaga. Í dag var síðan fundur á Sauðárkróki og var mæting þar góð. Þar voru greiðslumarksviðskipti bændum hugleikin, komið var inn á dýralæknamál, framleiðslu- og útflutningsmál mjólkur báru einnig talsvert á góma. Á öllum fundunum var þó nokkur umræða um verðlagsmál mjólkur og stöðu verðlagsgrundvallar kúabús, stöðu nautakjötsframleiðslunnar, auk annarra mála. Næstu fundir eru í Ósbæ á Blönduósi í kvöld kl. 20.30 og Hótel Hamri í Borgarnesi á morgun, föstudag, kl. 12.00. /BHB og SL.